Stjórnarskipti breyta engu

Krónan er hornreka á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Krónan er hornreka á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Fjármálasérfræðingar segja, að mannaskipti í embætti forsætisráðherra á Íslandi muni ekki hafa áhrif á stöðu íslensku krónunnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

„Það sem hefur gerst á Íslandi er í raun ekki stjórnmálakreppa," hefur Reutersfréttastofan  eftir Chris Turner, sérfræðingi hjá fjármálafyrirtækinu ING.

Hann segir, að fjármálamarkaður horfi einkum á þá hættu, sem talin er vera á lánveitingum til Íslands og bati sé ekki í sjónmáli þrátt fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að íslenskum efnahagsmálum.

Reutersfréttastofan segir, að engin alþjóðleg viðskipti hafi verið með íslensku krónuna frá því á miðvikudag þótt gengi gjaldmiðilsins hafi styrkst nokkuð á millibankamarkaði á Íslandi. Himinn og haf sé á milli gengis krónunnar á íslenskum markaði, þar sem 160 krónur fást fyrir evru, og á alþjóðlegum markaði sem greiða þarf 210-215 krónur fyrir evruna.

Fram kemur að fjárfestar séu afar tortryggnir í garð íslenskra stofnana eftir bankahrunið, sem varð í október en margar fjármálastofnanir hafa tapað miklu fé á falli bankanna. Þetta leiðir til þess, að lítil sem engin alþjóðleg viðskipti eru með krónuna. 

„Afar fáir bankar vilja taka lánaáhættu gagnvart íslenskum bönkum eins og stendur," segir Turner. „Þetta kemur í veg fyrir að krónumarkaður myndist utan Íslands.

Alþjóðleg matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins verulega á síðasta ári. Haft er eftir Michael Ganske, sérfræðingi hjá Commerzbank, að veikindi íslenska forsætisráðherrans og nýjar kosningar bæti ekki úr skák. Og þótt ekki sé hægt að segja að íslenska ríkisstjórnin hafi verið sérlega farsæl muni þessir atburðir enn auka á óstöðugleikann.

Kenneth Orchard, sérfræðingur hjá matsfyrirtækinu Moody´s, segir að fylgst verði grannt með stöðu mála á Íslandi næstu mánuðina. Nauðsynlegt sé að þar komist á stöðugleiki þannig að stjórnvöld geti slakað á þeim höftum, sem sett hafi verið á gjaldeyrisviðskipti og peningamál.

Moody's segir, að fyrirtækið myndi líta á tilraunir Íslendinga til að ganga í Evrópusambandið jákvæðum augum en stjórnmálaþróunin á Íslandi væri þó minna áhyggjuefni. 

Frétt Reuters
mbl.is