Lögreglumenn skoða úrsögn úr BSRB

mbl.is/Júlíus

„Stjórn Landssambands lögreglumanna mun taka þetta fyrir á fundi á miðvikudaginn en hver niðurstaðan verður er ómögulegt að segja,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, (LL).

Háværar raddir eru nú uppi meðal lögreglumanna þess efnis að hagsmunum lögreglumanna kunni að vera betur borgið annars staðar en innan vébanda BSRB. Tölvupóstar hafa gengið milli lögreglumanna þar sem rætt er um úrsögn Landssambands lögreglumanna úr BSRB sem fyrst.

Umræða um úrsögn LL úr BSRB er ekki ný af nálinni. Kosið var um tillögu þessa efnis árið 2003 en hún var felld með fjögurra atkvæða mun.

Málið var aftur rætt á þingi LL árið 2006 og var þáverandi stjórn falið að kanna ítarlega kosti og galla úrsagnar úr BSRB. Lítið gerðist hins vegar í málinu.

Og enn sprettur upp umræða um úrsögn LL úr BSRB. Í þeim póstum sem gengið hafa, lýsa lögreglumenn áhyggjum af hagsmunaárekstrum sem snúa að Ögmundi Jónassyni, formanni BSRB og þingmanni VG og framgöngu hans og annarra þingmanna VG í þeim mótmælum sem verið hafa í miðborginni að undanförnu. Lögreglumönnum sem tjá sig í þeim póstum sem gengið hafa, þykja undarleg ummæli formanns BSRB og þingmanna VG um ofbeldi lögreglu gegn mótmælendum. Enn undarlegra þykir lögreglumönnum þó að formaður BSRB skuli þegja þunnu hljóði um ofbeldi gegn lögreglumönnum.

„Ég kem ekki auga á þessa hagsmunaárekstra og sé ekki í hverju þeir eiga að geta legið. Ég er hluti af þjóðinni, lögreglan er hluti af þjóðinni, BSRB er hluti af þjóðinni og þarna er fullkominn samhljómur á milli. Ég er einarður stuðningsmaður lögreglunnar. Þeir eru góðir félagar innan BSRB, hafa lagt gott til málanna og ég hef ekki orðið var við málefnalegan ágreining okkar í milli,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB.

Hann segir að í öllum sínum skrifum og yfirlýsingum, hafi hann tekið undir með lögreglunni og þeirra sjónarmiðum og lagt áherslu á að lögreglan hafi staðið sig vel og sýnt mikla yfirvegun og stillingu í þeirri erfiðu stöðu sem uppi hefur verið.

„Ég hef jafnan hrósað lögreglunni í tímans rás fyrir að hafa þrek til þess að taka gagnrýni og færa það sem gagnrýnivert er, til betri vegar,“ segir Ögmundur Jónasson.

BSRB hefur ályktað um lögregluna, síðast í desember sl. þar sem segir m.a. að mikilvægt sé að fólk láti ekki reiði og ofbeldi beinast að lögreglu eða öðrum sem hafa fengið það hlutverk að halda uppi lögum og reglu. Löggæslustéttirnar beri enga ábyrgð á hruni íslenska fjármálakerfisins og óstjórn sem því tengist. Það sé mikilvægt að löggæslumenn um allt land geti sinnt lögbundnum skyldum sínum án ótta um aðkast eða ofbeldi í starfi, rétt eins og það sé mikilvægt að fólkið í landinu geti mótmælt friðsamlega án ótta við yfirvöld.

mbl.is er kunnugt um að fulltrúar LL hafi hitt formann BSRB og Atla Gíslason, þingmann VG þar sem málin voru rædd umbúðalaust. Til stóð að fulltrúar LL kæmu fyrir allsherjarnefnd Alþingis en óvíst er hvenær af því getur orðið vegna stjórnarslitanna.

Af þeim póstum sem gengið hafa má merkja að mikill hiti er í lögreglumönnum. Formaður LL segir rétt að skoða málið ítarlega en leggur áherslu á að ákvörðun um úrsögn eða áframhaldandi veru í BSRB, verði að taka með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Tilfinningahiti megi ekki ráða slíkri ákvörðun. Ef til vill komist menn að því að lögreglumönnum sé betur borgið utan BSRB en innan, eða öfugt. Það verði að skoða ofan í kjölinn.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna. mbl.is/Ómar
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB mbl.is/Ásdís
mbl.is

Bloggað um fréttina