Mótmæli um allt landið

Mótmæli Akureyri
Mótmæli Akureyri mbl.is/Skapti

Nokkur þúsund manns komu saman á Austurvelli á laugardaginn á sextánda mótmælafundi samtakanna Radda fólksins í röð.

Magnús Björn Ólafsson blaðamaður flutti m.a. ávarp og gagnrýndi þá sem grýttu lögreglumenn í mótmælum á Austurvelli og reyndu að kveikja í Alþingishúsinu. Sagði hann að litlum hópi hefði næstum tekist að eyðileggja þrotlaust starf þúsunda, sem unnið hefðu að því undanfarna mánuði að byggja upp nýtt og réttlátara þjóðfélag.

Á Norðurlandi mótmæltu Íslendingar á Akureyri og í Mývatnssveit, þar sem krafist var afsagnar ríkisstjórnarinnar, bankastjóra Seðlabankans og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Mótmælafundurinn í Mývatnssveit var haldinn á Hallarflötinni í Dimmuborgum og var í upphafi fundar flutt stutt ávarp, en þar á eftir var táknræn athöfn þar sem reist var mynd af föllnu Íslandi og sterkari stoðum komið undir landið á ný.

Fundarmönnum gafst tækifæri til að tjá sig og loks var þagnarstaða í fimm mínútur á meðan fólk íhugaði ástandið í þjóðfélaginu, þjappaði sér saman og sendi frá sér „jákvæða orku til uppbyggingar betra samfélags“.

Dráttarvélar í mótmælum

Á Akureyri kom fólk saman á Ráðhústorgi eins og undanfarna laugardaga. Hópur sem kallar sig Fólkið í landinu stendur fyrir mótmælafundunum á Akureyri. Safnast var saman við Samkomuhúsið og gengið út á Ráðhústorg. Um 300 manns sóttu fundinn.

Sextán dráttarvélar fóru á undan kröfugöngunni frá Samkomuhúsinu og út á torg og var vélunum lagt á Ráðhústorgi á meðan fundurinn fór fram.

Guðbergur Egill Eyjólfsson, bóndi og nemi í HA, ávarpaði fundinn ásamt Emblu Eiri Oddsdóttur, sem einfaldlega er titluð sem „íslensk kona“.

Á Silfurtorgi á Ísafirði komu milli sextíu og áttatíu manns saman á laugardaginn. Að sögn lögreglu fór útifundurinn afskaplega vel fram og umgengnin var öllum til sóma. Fluttar voru ræður og ljóst er að fólk er ósátt við ástandið á landinu. Að sögn lögreglu á Egilsstöðum var haldinn mótmælafundur í Tjarnargarðinum þar og voru samankomnir þar um 50 manns. Þar voru fluttar ræður og allt fór vel fram enda býr þar „friðsemdarfólk“ eins og lögregla orðaði það.

sia@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »