Hefur ekki áhyggjur af sölu afurða

Hvalveiðiskip Hvals héldu til veiða árið 2006 eftir nærri 20 …
Hvalveiðiskip Hvals héldu til veiða árið 2006 eftir nærri 20 ára hlé. mbl.is/ÞÖK

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segist ekki hafa áhyggjur af því að ekki takist að selja afurðir af þeim hvölum, sem veiddir verði hér við land á næstu árum. Sjávarútvegsráðherra gaf í dag út veiðikvóta til næstu 5 ára og verður leyft að veiða allt að 150 langreyðar.

Kristján sagði, að þetta væri framhald af því sem hafi verið í gangi hér á landi, bæði hvað varðar hrefnuna og langreyði. 

„Við höfum verið í ýmsum undirbúningi í Hvalfirði en það hefur þurft að fara yfir tæki og tól og verið í vetur og vinna að ýmsum lagfæringum þar. Svo þarf að taka skip og fleira í gegn."

Hann sagði erfitt að svara því hve mikil verðmæti væru í hvalkjötinu. „En þótt það séu harðir tímar í Japan núna, sem er okkar aðal markaður, þá held ég að þetta verði allt í lagi."

Kristján flutti á síðasta ári um 80 tonn af langreyðakjöti til Japans og fékkst innflutningsleyfi fyrir kjötið í vetur. „Japanar höfðu ekki séð svona innflutning í tæp tuttugu ár. Þeir eru á varðbergi gagnvart innflutningi á matvælum og maður skilur, að þessi ráðuneyti vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Þetta fór í gegn um miklar prófanir en stóðst allar kröfur," sagði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina