Næsta hrun í Bretlandi?

Breska hagkerfið er á barmi hruns, að mati bandarísks tímarits.
Breska hagkerfið er á barmi hruns, að mati bandarísks tímarits.

Bandaríska tímaritið Foreign Policy birtir á vef sínum í dag umfjöllun um þær þjóðir, sem taldar eru líklegastar til að lenda í fjármálahruni líkt og gerst hefur á Íslandi. Er Bretland þar efst á listanum en á eftir fylgja Lettland og Grikkland.

Tímaritið segir, að ástandið sé sérlega slæmt í Bretlandi vegna þess hve hagkerfi landsins sé háð fjármálastarfsemi. Nú skuldi breskir bankar um 4,4 billjónir dala og það sé stór biti að kyngja í ljósi þess að landsframleiðslan sé 2,1 billjón.

Þá segir blaðið að bresk stjórnvöld hafi þegar þjóðnýtt stóran hluta af fjármálageiranum og óttast sé að frekari aðgerðir í þá veru séu væntanlegar. Bresk ríkisfjármál séu orðin svo fyrirferðarmikil í hagkerfinu að landið sé nú kallað Sovét-Bretland.

Auk landanna þriggja, sem talin voru upp hér að framan, nefnir Foreign Policy Úkraínu og Níkaragva.

Foreign Policy

mbl.is

Bloggað um fréttina