Skýr skilaboð frá Svíum

Árni Finnsson.
Árni Finnsson.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að gagnrýni eins og sú sem forseti Norðurlandaráðs, Sinikka Bohlin, setti fram vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda um að auka hvalveiðikvótann, sé afar fátíð.

„Ég held að Svíar hafi áhyggjur af því að þurfa að eiga við Íslendinga vegna hvalveiða um leið og Ísland þurfi á hjálp Svía að halda,“ segir Árni.

Svíar séu nú í forsæti Norðurlandaráðs og þeir verði í forsæti ESB-ríkja á síðari hluta þessa árs. Slík milliríkjadeila myndi gera það erfiðara fyrir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, að veita Íslendingum þá aðstoð sem íslensk stjórnvöld muni vafalítið sækjast eftir.

Árni telur jafnframt að hvort Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu á næstunni eða ekki séu góð samskipti Íslands við Svíþjóð, ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórnina í Brussel lykilatriði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert