Sýknaður af ummælum í bloggi

Gaukur Úlfarsson var m.a. annar skapari Silvíu Nætur.
Gaukur Úlfarsson var m.a. annar skapari Silvíu Nætur. mbl.is/RAX

Hæstiréttur hefur sýknað Gauk Úlfarsson í meiðyrðamáli, sem Ómar Valdimarsson höfðaði á hendur honum vegna ummæla á bloggsíðu. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sakfellt Gauk og dæmt hann til að greiða Ómari 300 þúsund krónur í skaðabætur.

Tildrög málsins voru þau, að í aðdraganda þingkosninganna árið 2007  skrifaði Gaukur m.a. á bloggsíðu sína á blog.is, að Ómar væri „Aðal Rasisti Bloggheima.“ Einnig sagði hann: „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðis saman, talsmann Impreglio á Íslandi,“ og: „Ég mæli því með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendinga hatur hans standi þar ekki óhaggað.“

Héraðsdómur dæmdi þessi ummæli  dauð og ómerk. Hæstiréttur taldi hins vegar, að skoða mætti skrif Gauks sem lið í almennri umræðu um stjórnmál í aðdraganda alþingiskosninga, en þau birtust í miðli sem opinn var hverjum sem vildi kynna sér þau. Ómar hafi tekið þátt í þeirri umræðu á sama vettvangi.

Taldi Hæstiréttur að ummæli Gauks hafi verið ályktanir sem hann hafi talið sig geta reist á orðum Ómars og því yrði ekki slegið föstu að þær hafi verið með öllu staðlausar. Það hafi verið á valdi hvers þess, sem kynnti sér greinar þær sem ummælin birtust í, að móta sér sjálfstæða skoðun á því hvort gildisdómar Gauks hafi verið á rökum reistir, en gagnvart þeim sem ekki hafi verið sama sinnis hafi orð hans dæmt sig sjálf.

Vegna þessa og að gættum rétti hans samkvæmt stjórnarskrárinnar voru ummælin ekki ómerkt og bótakröfur Ómars voru ekki teknar til greina. 

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina