REI-menn bera vitni

mbl.is

Fyrrverandi stjórnendur og stjórnarmenn Reykjavík Energy Invest (REI) og forstjóri Geysis Green Energy (GGE) eru meðal þeirra sem eru á lista yfir vitni í dómsmáli Hafnarfjarðar gegn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sem verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Á meðal þeirra sem eru á listanum eru Bjarni Ármannsson, fyrrverandi stjórnarformaður REI, Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi stjórnarmaður í REI, Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, Haukur Leósson, fyrrverandi stjórnarformaður OR og stjórnarmaður í REI, Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri REI og OR, og Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE.

Auk þeirra eru fjölmargir borgarfulltrúar í Reykjavík, Hafnarfirði og fulltrúar annarra eigenda í Hitaveitu Suðurnesja (HS) á listanum. Þessir einstaklingar eru boðaðir til að gefa skýrslu fyrir dómi til að varpa ljósi á ferli sem byrjaði með sölu á hlut ríkisins í HS og endaði með REI-málinu svokallaða sem litaði borgarmálin í Reykjavík um margra mánaða skeið. Ef listinn verður samþykktur er því líklegt að fram komi upplýsingar við aðalmeðferð málsins sem aldrei hafa komið fram opinberlega áður. Samningsviðræður um lokaútgáfu af listanum standa þó enn yfir.

Dómsmálið sem nú er til meðferðar snýst um að Hafnarfjörður vill knýja OR til að virða samkomulag um að kaupa hlut bæjarins, 15,4 prósent, í HS á genginu 7,0. Við síðasta verðmat var virði hlutarins verðmetið 4,7 og er líklega lægra í núverandi árferði. OR telur sig ekki þurfa að efna samkomulagið vegna þess að Samkeppniseftirlitið hefur meinað henni að eiga meira en 16 prósent í uppskiptri HS, en fyrirtækið á þegar 15,4 prósent.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert