Vilhjálmur Þ.: Gagnrýnir fréttaflutning Morgunblaðsins

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson mbl.is/Frikki

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir fréttaflutning Morgunblaðsins um dómsmál Hafnarfjarðar gegn Orkuveitunni sem tekið veriður fyrir í dag.

„Hafnarfjarðarbær rekur fyrir dómstólum innheimtumál gegn Orkuveitu Reykjavíkur. Í málinu er tekist á um hvort fyrirhuguð kaup OR á hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja eigi að ganga eftir eða ekki. Áður en kaupin voru frágengin, sem samþykkt voru einróma í stjórn OR, kváðu samkeppnisyfirvöld upp úrskurð um að með kaupunum yrði eignarhlutur OR meiri en lög landsins heimiluðu. Dómsmálið snýst um þessi afskipti samkeppnisyfirvalda. 

Í Morgunblaðinu í dag er því slegið upp með stórri fyrirsögn og myndum að „REI-menn" eigi að bera vitni í dómsmálinu. Í greininni kemur svo fram að á lista yfir vitni sé fjöldi borgar- og bæjarfulltrúa og fleiri. Á listanum munu vera nöfn 18 einstaklinga. Er ekki rétt að Morgunblaðið upplýsi hverjir hinir fjórtán eru og birti myndir af þeim. 

Upplýst skal að REI kom hvergi nærri samningum OR og Hafnarfjarðarbæjar og komu þeir samningar aldrei inn á borð stjórnar REI. Þetta hefði Morgunblaðið fengið upplýst hjá „REI-mönnum" ef eftir því hefði verið leitað. Kjósi Morgunblaðið að stunda fréttamennskuna skjótum fyrst - spyrjum svo, er það mjög miður," segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

mbl.is