Hvetja til viðskiptaþvingana vegna hvalveiða

Kvikmyndaleikkonan Daryl Hannah sigldi með Paul Watson á hvalamiðin í …
Kvikmyndaleikkonan Daryl Hannah sigldi með Paul Watson á hvalamiðin í Suðurhöfum í vetur. AP

Umhverfisverndarsamtökin Sea Shepherd hvetja til þess, að sniðgengnar verði vörur og þjónusta frá Íslandi vegna þeirrar ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að leyfa veiðar á langreyði og hrefnu næstu fimm ár.

„Ísland hefur hrækt í andlit náttúruverndarsinna um allan heim með þeirri öfgakenndu tilkynningu, að þeir vilji slátra 150 langreyðum í útrýmingarhættu og 100 hrefnum á þessu ári," segir Paul Watson, leiðtogi samtakanna, á heimasíðu þeirra.

Hann segir að langreyður sé skráð sem dýrategund í útrýmingarhættu og Íslendingar hafi þegar brotið gegn alþjóðlegum friðunarlögum með því að flytja langreyðakjöt til Japans án útflutningsleyfa frá CITES-stofnuninni. 

„Af samskonar öfgakenndri ófyrirleitni, og leiddi til þess að allt hagkerfi Íslands hrundi, kemur Ísland því á framfæri við umheiminn, að landið telji sig undanþegið lögum, sem fjalla um náttúruvernd og dýrategundir í útrýmingarhættu. Fráfarandi ríkisstjórn, sem nánast eyðilagði efnahagskerfi Ísland, lýsti yfir stríði við hvali og fór síðan frá völdum með skömm," segir Watson. 

Hann segir, að Sea Shepherd hvetji nú alla til að sniðganga Íslendinga og að sem íslenskt er. „Við segjum við fólk um allan heim að kaupa ekki íslenskan vodka, lopapeysur og fisk, ferðast ekki til Íslands og nota ekki Ísland til að dæla eldsneyti á einkaþotur," segir Watson.

Hann bætir við, að Jeff Skoll, stofnandi eBay, og Bob Yari, kvikmyndaframleiðandi í Hollywood, hafi báðir tilkynnt Íslendingum að þeir muni ekki frama millilenda á Íslandi á einkaþotum sínum til að taka eldsneyti.

Paul Watson lengi beitt sér gegn hvalveiðum á Íslandi. Útsendari hans sökkti m.a. hvalbátum í Reykjavíkurhöfn árið 1986. Árið 2007 lýsti hann því yfir að hann ætlaði að koma á Íslandsmið á skipi samtakanna og trufla hvalveiðar. Ekkert varð þó úr þeirri för.

Watson hefur einnig reynt að trufla hrefnuveiðar Japana í Suðurhöfum með ýmsum aðferðum. 

Heimasíða Sea Shepherd

mbl.is