Ingibjörg á Bessastaði í dag

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon eftir fyrsta fund …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon eftir fyrsta fund þeirra um stjórnarmyndun. Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og fráfarandi utanríkisráðherra, mun eiga fund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands á Bessastöðum í dag kl. 12:00 á hádegi. Þar mun hún gera forsetanum grein fyrir niðurstöðum viðræðna sem fram hafa farið um stjórnarmyndun síðustu daga.

Jafnframt hefur forsetinn boðað Jóhönnu Sigurðardóttur, starfandi félagsmálaráðherra en verðandi forsætisráðherra, til Bessastaða í dag kl. 13:00 samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands.

Þetta er fimmti dagur stjórnmyndunarviðræðna, en að lokinni langri fundarsetu í gær með formönnum stjórnarflokkanna tveggja og eigin þingflokki tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að flokkurinn hyggðist verja nýja minnihlutastjórn falli. Þá náðist jafnframt samkomulag um það seint í gær að kosið verði til Alþingis laugardaginn 25. apríl næstkomandi.

Búast má við því að ný ríkisstjórn verði formlega kynnt síðdegis í dag að loknu fundahaldi á Bessastöðum og innan stjórnarflokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert