Áttræður vinnur fegurðarsamkeppni

Tæplega áttræður hlynur vann fegurðarsamkeppni á dögunum og gerði eiganda sinn afar stoltan. Borgarstarfsmenn hafa lengi haft horn í síðu glæsitrésins og viljað senda það í klippingu og jafnvel styttingu en Sverrir Bjarnason eigandi trésins sem man eftir því jafn lengi og sjálfum sér tekur ekkert slíkt í mál.

Gamla tréð hefur staðið við Bjarnarstóg 10 í Þingholtunum frá árinu 1930. Það var valið tré janúarmánaðar af Skógræktarfélagi Reykjavíkur og fær nú bæði ljósmyndir af sér og grein í lítinn bækling og silfurskjöld um þessa upphefð í fyllingu tímans.

Garðahlynurinn við Bjarnarstíg á sér fleiri aðdáendur enda er hann dísætur. Á sumrin sækja í hann fiðrildi og flugur enda framleiðir hann svo mikið síróp að því rignir yfir bílana sem standa við götuna.

Kristján Bjarnason starfsmaður Skógræktar Reykjavíkur segir tré mánaðarins valin ýmist vegna þess að þau séu, glæsileg, sjaldgæf söguleg eða merkileg fyrir aðrar sakir.  Það eru borgarbúar sjálfir sem hringja inn ábendingar um trén.

Sjá nánar í MBL Sjónvarpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina