Dorrit: Ísland verði svalari útgáfa af Dubai

Dorrit Moussaieff.
Dorrit Moussaieff. mbl.is/Kristinn

Dorrit Moussaieff er í viðtali við breska blaðið The Sunday Times um helgina og segir þar í undirfyrirsögn að hún sé með áætlun um það hvernig megi endurreisa landið - með því að gera það að svalari útgáfu af Dubai.

Í greininni kemur fram að ríkisstjórn manns hennar hafi sagt af sér í einu lagi en hún virðist ekki í miklu uppnámi út af stjórnmálaumrótinu. „Hann er núna að sinna algerlega nýrri ríkisstjórn,“ hefur blaðið eftir henni og spyr hana síðan hvers vegar hann hafi ekki sagt af sér. „Enginn bað hann um það,“ svarar hún að bragði.

„Vegna þess að ég hef bakgrunn í viðskiptalífinu og ég er ekki upprunalega frá Íslandi get ég horft á mál með hlutlægum hætti,“ segir hún seinna í samtalinu. „Og vegna þess að ég er fjárhagslega sjálfstæð get ég gert það sem ég er að gera fyrir Ísland. Áður höfðu viðskiptavinir mínir forgang. Nú er það Ísland.“

Í blaðinu kemur fram að Dorrit hefur ýmsar hugmyndir um það hvernig endurreisa megi landið. Hún nefnir að hún vilji láta byggja upp sjö,átta eða tíu hágæða þjónustusvið á Íslandi sem landið verði þekkt fyrir. Auk ferðamennsku nefnir hún Omega3 töflur, erfðapróf og Latabæ. Einnig hnéaðgerðir, heilsuböð, íslenska vatnið og íslenska lambið.

Blaðið segir að hún vonist eftir að unnt verði gera landið að sælureit fyrir viðskiptavini sem eru góðu vanir, eilítið svalari útgáfu af Dubai, með fisk og hveri í stað sandsins. Fram kemur að hún hafi rekist á yfirgefinn flugvöll hér og vonist til að geta breytt honum í geymslur fyrir listasöfn sem fólk gæti komið og skoðað. Hún er sögð vera að vinna að þessum áformum í félagi við góða vinkonu sína, Francesca von Habsburg.

„Við erum fjóra og hálfa klukkustund frá Ameríku, þrjár og hálfa klukkustund frá Evrópu og mjög nærri Rússlandi. Fólk borgar stjarnfræðilegar upphæðir fyrir geymslu á verkum sínum í Englandi og Sviss. Við bjóðum geymslur fyrir helmingi minni fjárhæðir. Fólk getur komið, skoðað listaverkin, farið í nudd, í heilsuböð og borðað ótrúlegan mat. Ég fer svo eins að með skartgripina. Fólk verður að geta komið og skoðað þá einhversstaðar áður en það kaupir þá,“ segirDorrit Moussaieff í viðtalinu í The Sunday Times.

Viðtalið við Dorrit Moussaieff

mbl.is