Uppsagnir 1900 að taka gildi

mbl.is/Kristinn

Ef litið er á allar tilkynntar hópuppsagnir sem Vinnumálastofnun hafa borist, missa um 1.900 manns vinnuna á næstu þremur til fjórum mánuðum. Flestir missa vinnuna í febrúar eða um 1.100 manns og um 500 í mars.

Á vef Vinnumálastofnunar er samantekt yfir tilkynntar hópuppsagnir. Í janúar bárust Vinnumálastofnun 10 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem sagt var upp samtals 167 einstaklingum.

Fjórar tilkynningar voru úr mannvirkjagerð með samtals 50% þeirra sem sagt var upp með þessum hætti, aðrar uppsagnir dreifðust á flutningastarfsemi, fjármálastarfsemi, verslun, iðnað og upplýsinga- og útgáfustarfsemi.

Vinnumálastofnun segir að helstu ástæður uppsagna séu rekstrarerfiðleikar, verkefnaskortur og endurskipulagning.

Flestar uppsagnirnar sem tilkynntar voru í janúar koma til framkvæmda í maí, en allmargar í mars og apríl.

Ef litið er á allar tilkynntar hópuppsagnir, sem borist hafa síðustu mánuði og koma til framkvæmda á árinu 2009, má sjá að flestir eru að missa vinnuna nú í febrúar, eða yfir 1.100 manns. Tæplega 500 manns missa vinnuna í byrjun mars, ríflega 200 í byrjun apríl og um 100 manns í maí. Samtals um 1.900 manns á næstu fjórum mánuðum. Langflestir í þessum hópi vinna við mannvirkjagerð en fast á hæla þeirri atvinnugrein fylgir verslun.

Vefur Vinnumálastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert