Þýskir sparifjáreigendur í hópi mótmælenda

Þýskir sparifjáreigendur voru meðal mótmælenda á Austurvelli í dag.
Þýskir sparifjáreigendur voru meðal mótmælenda á Austurvelli í dag. Morgunblaðið/Kristinn

Milli fimm hundruð og þúsund manns mættu á 18. fund Radda fólksins á Austurvelli í dag. Meðal mótmælenda voru þýskir sparifjáreigendur sem komu til landsins fyrir helgi til þess að funda með Kaupþingsmönnum í von um að endurheimta sparifé sitt.

Ræðumenn dagsins voru Laufey Ólafsdóttir, formaður einstæðra foreldra, og Andrés Magnússon, geðlæknir.

Á vef Radda fólksins segir m.a.: „Segja má að forseti og þing hafi að hluta til tekið undir sjónarmið Radda fólksins með skipan óháðra sérfræðinga í stöður viðskipta- og dómsmálaráðherra. Búsáhaldabyltingin hefur því náð að hreyfa við gamla flokksræðinu, en betur má ef duga skal. Nú er nauðsynlegt að taka upp virkt lýðræði og losa þjóðina við útsendara flokkseigenda í fjármálafyrirtækjum, stjórnsýslunni, háskólum og fjölmiðlum.

Það er ekki að ástæðulausu að áhrifum útifundanna hefur verið líkt við Múrbrjót sem með endurteknum þunga mylur niður þann múr þagnar og spillingar sem einkennt hefur stjórnarhætti hérlendis til margra ára. Og áfram skal haldið.“

Boða mótmæli við Seðlabankann

RÚV greinir frá því á vef sínum að Hörður Torfason hafi á fundinum hvatt mótmælendur á Austurvelli til að efna til mótmæla við Seðlabankann á mánudaginn þegar Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, sem ekki hafa orðið við beiðin forsætisráðherra um að láta af störfum, mæta til vinnu.


Hátt í þúsund manns tóku þátt í 18. mótmælafundinum á …
Hátt í þúsund manns tóku þátt í 18. mótmælafundinum á Austurvelli síðan bankakerfið hrundi í október sl. Morgunblaðið/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert