Skilnaður skaðar börnin til langs tíma

Aðskilnaður barna við föður veldur þeim oft alvarlegum skaða.
Aðskilnaður barna við föður veldur þeim oft alvarlegum skaða. Mbl.is/Golli

Deilur milli foreldra um umgengni eða forsjá barna við skilnað skaða þau, oft alvarlega og til langs tíma. Þetta er meðal niðurstaðna Stefaníu Karlsdóttur, sem hefur gert samantekt á íslenskum rannsóknum um málefni barna og foreldra eftir skilnað.

Meðal annarra niðurstaðna Stefaníu eru að réttarkerfið vinni seint og oft illa við að afgreiða forsjár- og umgengnismál þegar deilur eru milli foreldra um þessi atriði. Oft virðist það og félagsþjónusta huga meira að hagsmunum mæðra en barna við afgreiðslu þessara mála, en í skýrslu sinni segir Stefanía tengslarof barna við feður eftir skilnað eina alvarlegustu atlöguna sem unnin er á barni.

Kemur fram að á Íslandi séu á hverjum tíma í það minnsta 500 börn sem búa við skert lífsgæði og upplifa oft alvarlega vanlíðun eða sorg vegna deilu foreldra um umgengni og forsjá og vegna rofinna tengsla við föður. Þetta á sérstaklega við um drengi, segir í skýrslunni.

Flest skilnaðarbörn kjósi að verja meiri tíma með föður sínum en mæður virðist geta stýrt samskiptum barna og feðra nánast óáreittar. Umgengnistálmanir, heilaþvottur, illt umtal og stýring hafi verulega slæm áhrif á börnin.

Þá sýni rannsóknir að sameiginleg forsjá skipti börn mjög miklu máli. Þau börn sem búi við slíkt fyrirkomulag hafi betri tengsl við báða foreldra og líður almennt betur en ef forsjá er hjá öðru foreldrinu.

Skýrsla Stefaníu Karlsdóttur í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina