Niðursveiflan meiri

Jóhanna Sigurðarsdóttir.
Jóhanna Sigurðarsdóttir. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að niðursveiflan í efnahagslífinu virtist ætla að verða meiri en áður var talið og atvinnuleysið aukist hraðar en áður var óttast. Úrlausnarefnin þyldu enga bið og stjórnmálamenn yrðu að láta af karpi.

Jóhanna sagði, að metnaðarfullum markmiðum í áætlun sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi því miður ekki verið fylgt eftir af nægilegum krafti vegna ákvarðanafælni og seinagangs í síðustu ríkisstjórn. Þeirri vinnu hefði nú verið hraðað.

Verið er að ræða utan dagskrár á Alþingi um efnahagsmál að ósk Geirs H. Haarde, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Geir sagði að sumt af því, sem gert hefði verið á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, boðaði ekki gott og hann óttaðist að mikilvægum atriðum verði drepið á dreif með því að ráðstafa tíma þingsins á næstunni í breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum sem kunna að verða mjög tímafrekar.  

Geir sagði að standi ríkisstjórnin við áætlanir fyrri ríkisstjórnar um samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé engu að kvíða en frekari lánafyrirgreiðsla sé háð endurmati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það valdi áhyggjum, að stjórnarflokkarnir hafi mismunandi afstöðu og sýn á samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Geir sagði það lykilatriði að vel takist til um endurreisn bankanna og komist bankarnir á starfhæfan grundvöll mun það hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið. Því sé ótrúlegt að nýja ríkisstjórnin skyldi láta verða það eitt fyrsta verk að stugga við stjórnarformönnum Nýja Glitnis og Nýja Kaupþings.  Ríkisstjórnin beri alla ábyrgð á því ástandi, sem skapast hafi í bankastjórnunum.

Þá sagði Geir að samræmingarnefnd, sem starfað hefur á vegum stjórnarráðsins og kynnti starfsáætlun í gær, hafi gegnt algeru lykilhlutverki í stjórnkerfinu frá því bankarnir hrundu. Ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hefðu verið algerir lykilmenn í þeirri nefnd og haft fullkomna yfirsýn yfir alla þætti flókinna mála sem komu upp eftir fall bankanna. Því væri hörmulegt og fullkomlega óskiljanlegt að þeim hafi nú verið vikið til hliðar í ráðuneytunum.

Jóhanna sagði að láta þyrfti verkin tala mun hraðar en gert hafi verið. Vitnaði hún til orða Mats Josepssons, formanns samræmingarnefndarinnar, á blaðamannafundi í gær, að  stjórnvöld hér á landi hafi ekki gætt hagsmuna ríkisins nógu vel.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði ekki ósanngjarnt að segja að 99,5% af aðstæðunum á Íslandi nú skrifaðist á reikning fyrri ríkisstjórna. Þá vísaði á bug sögum um hreinsanir í stjórnkerfinu.

Sagðist Steingrímur vera undrandi yfir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að leggja sitt að mörkum með flugeldasýningum og ólátum. „Það einfaldlega birtist manni þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að míga í alla brunna sem hann sér og kveikja í öllu heyi sem hann finnur.  Það er framlag hans til stöðugleikan í landinu," sagði Steingrímur og bætti við að svo virtist sem flokkurinn hafi meiri áhyggjur af atvinnu tveggja flokksgæðinga en atvinnuleysi 13-14 þúsund manns.

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Golli
mbl.is