Tölvupóstsamskipti við gjaldeyrissjóðinn birt

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Forsætisráðuneytið hefur ákveðið að birta tölvupóstsamskipti milli ráðuneytisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna  athugasemda, sem sjóðurinn gerði við frumvarp ríkisstjórnarinnar um seðlabankalög.

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í síðustu viku á Alþingi, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði sent forsætisráðuneytinu athugasemdir við frumvarpið og tekið fram að þær væru veittar í trúnaði. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist á Alþingi í dag hafa fengið þær upplýsingar frá sjóðnum, að það væri undir íslenskum stjórnvöldum komið hvort umsögnin væri birt.

Í kjölfarið hefur forsætisráðuneytið birt tölvupóstsamskipti milli ráðuneytisins og sjóðsins vegna umræddra athugasemda. Í tölvupósti frá Mark Joseph Flanagan til Björns Rúnars Guðmundssonar, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu þann 7. febrúar, segir m.a. að líta eigi á athugasemdirnar sem ráðgjöf veitta í trúnaði og þær séu ekki til opinberrar birtingar.

Í tölvupósti 9. febrúar ítrekar Flanagan að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vilji ekki að tæknileg ráðgjöf sjóðsins til stjórnvalda verði gerð opinber vegna þess að hætta sé á að sjóðurinn dragist þannig inn í pólitískar deilur og ummæli verði tekin úr samhengi. Flanagan býðst hins vegar til að veita opinbera umsögn en það taki sérfræðinga um það bil 2 daga.

12. febrúar sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér umsögn til bráðabirgða um frumvarpið og hún var birt opinberlega síðar sama dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert