Gönguhermir verðlaunaður

Jóna Guðný Arthúrsdóttir, Andri Yngvason og fulltrúi Bjarka Más Elíassonar …
Jóna Guðný Arthúrsdóttir, Andri Yngvason og fulltrúi Bjarka Más Elíassonar með verðlaunin. mbl.is/Kristinn

Tveir verkfræðinemar og sjúkraþjálfari fengu í dag nýsköpunarverðlaun forseta Íslands fyrir gönguhermi sem getur nýst fötluðum við líkamsæfingar.

Verðlaunahafarnir eru Bjarki Már Elíasson vélaverkfræðinemi og Andri Yngvason nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði og Jóna Guðný Arthúrsdóttir, sjúkraþjálfari.

Gönguþjálfinn er hugsaður þannig, að börnin séu fest í tækið þannig að þau standi upprétt, og svo framkallar tækið ákveðna hreyfingu á fótum þeirra, hreyfingu sem líkir eftir eðlilegri göngu.

„Þau börn sem gönguhermirinn er hugsaður fyrir eru alveg bundin í hjólastól og fá því litla sem enga hreyfingu dagsdaglega. Sú hreyfiþjálfun sem hermirinn myndi veita, gæti skipt miklu máli til að auka beinþéttni barnanna sem iðulega er mjög lítil, auka þroska mjaðmaliða og bæta blóðflæði svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndin er sú að börnin geti haft tækið á leikskólanum, í grunnskólanum eða jafnvel heima hjá sér, þannig að hægt sé að flétta notkun þess inn í daglegt líf barnanna,“ sagði Jóna Guðný við Morgunblaðið í dag. 

Tæki sem þetta hefur ekki verið til á markaðnum til þessa og er vonast til að hægt verði að koma því í framleiðslu.

mbl.is