Svigrúm skuldara aukið

Ragna Árnadóttir, lengst til hægri, lagði síðdegis fram frumvarp sem …
Ragna Árnadóttir, lengst til hægri, lagði síðdegis fram frumvarp sem ætlað er að auka svigrúm skuldara. mbl.is/Kristinn

Heimilt verður að fresta nauðungarsölu til loka ágúst 2009 svo að skuldarar fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín, samkvæmt frumvarpi sem Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra lagði fram á Alþingi í dag. Þá verður aðfararfrestur lengdur tímabundið úr fimmtán dögum í fjörutíu daga og heimilt verður að veita einstaklingi þriggja mánaða frest til að leita nauðasamninga eða nýta sér úrræði greiðsluaðlögunar ef krafist hefur verið gjaldþrotaskipta á búi hans.

Með frumvarpi dómsmálaráðherra eru lagðar til breytingar á þrennum lögum, sem ætlað er að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og frestun á nauðungarsölu svo skuldari fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín.

Í fyrsta lagi er lagt til að lögum um aðför verði breytt tímabundið til 1. janúar 2010 þannig að í stað 15 daga aðfararfrests komi 40 dagar.

Í öðru lagi er lagt til að lögum um nauðungarsölu verði breytt þannig að sýslumanni beri að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 31. ágúst 2009, töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef um ræðir fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. ágúst 2009.

Í þriðja lagi er lagt til að lögum um gjaldþrotaskipti verði breytt þannig að gerðarþoli sem sætir beiðni um gjaldþrotaskipti á búi sínu skuli njóta leiðbeininga héraðsdómara um þau úrræði sem honum standi til boða, þ.e. um nauðasamninga og nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Þá er lagt til að frestur sem dómari má veita við meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti verði lengdur og geti að hámarki orðið þrír mánuðir.

Jafnframt er lagt til að þegar kröfu er lýst í þrotabú hefjist nýr fyrningarfrestur sem er tvö ár. Hér er um styttingu á fyrningarfresti að ræða frá því sem verið hefur, en hann hefur verið mislangur.

Í frumvarpinu er kveðið á um að ef nauðungarsölu er frestað skuli kröfur, sem trygging er fyrir í viðkomandi eign og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess, ekki bera dráttarvexti til 1. september 2009.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er bent á að skattakröfur bera ekki aðra vexti en dráttarvexti og með frumvarpinu sé verið að gefa þá eftir að hluta til ákveðins hóps en ekki annarra. Þá er vakin athygli á að þetta ákvæði frumvarpsins geti falið í sér flókna framkvæmd og það virðist mismuna skuldurum eftir því hversu langt mál þeirra eru komin í innheimtu.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að skiptastjóri þrotabús geti, ef veðhafar búsins samþykkja, heimilað skuldara að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu búsins í allt að 12 mánuði. Fyrir þau afnot greiðir skuldari leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni. Það sem umfram er, gengur til greiðslu veðskulda sem á eigninni hvíla. Þessi heimild fellur niður 1. mars 2010, en ákvörðun sem skiptastjóri hefur tekið fyrir þann dag stendur til loka þess tíma sem ákveðinn var.

Frumvarp dómsmálaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert