Kröfur um menntun seðlabankastjóra væntanlega rýmkaðar

mbl.is/Ómar

Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, segir að ekki standi til af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að gera breytingar á tveimur meginatriðum frumvarps um breytingu á lögum um Seðlabanka, þ.e. að seðlabankastjóri verði einn í stað þriggja nú og sett verði á stofn peningastefnunefnd.

Hins vegar hafi komið fram athugasemdir um kröfur, sem gerðar eru í frumvarpinu um menntun seðlabankastjóra og reikna megi með, að nefndin leggi til að þær kröfur verði rýmkaðar.  Í upphaflega frumvarpinu er gerð krafa um að seðlabankastjóri hafi lokið meistaraprófi í hagfræði.

Álfheiður segir að nefndinni hafi borist mikið af ábendingum og athugasemdum við frumvarpið. Fundur var í nefndinni í morgun og sagði Álfheiður, að farið verði yfir allar athugasemdir, sem borist hafa. 

Sagist hún  gera sér vonir um að frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni fyrir helgina.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert