„Þungu fargi af okkur létt“

mbl.is/ÞÖK

„Ég er í skýjunum. Þetta er búin að vera leiðindabið,“ sagði Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., þegar ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra um hvalveiðar lá fyrir.

Steingrímur tilkynnti að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, forvera síns, standi óbreytt fyrir yfirstandandi ár. Samkvæmt því verður leyft að veiða 100 hrefnur og 150 langreyðar.

Gunnar Bergmann segir að hvalveiðimenn hafi verið búnir undir hvað sem er, yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra hafi verið á þann veg, fyrstu daga þeirra í embætti.

„En nú er þungu fargi af okkur létt. Nú setjum við allt á fullt þannig að við getum hafið veiðar í maí. Það þarf að ganga frá bátamálum, vopnakaupum frá Noregi, þ.e. kaupum á sprengjum og skutlum og síðast en ekki síst þarf að ganga frá húsnæðismálum á Akranesi,“ sagði Gunnar Bergmann.

mbl.is