Ólafur F.: Framsóknarvæðing í borgarstjórn

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. mbl.is/Kristinn

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans segir að allt frá því að núverandi meirihluti Óskars Bergssonar og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks tók við í borginni hefur átt sér stað eins og gerðist í meirihlutatíð Björns Inga Hrafnssonar og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins það sem hann kallar „framsóknarvæðingu". 

„Í þessu orði felst að verið er að koma framsóknarmönnum að í nefndum og ráðum borgarinnar langt umfram kjörfylgi og þannig úthluta fulltrúum þess flokks tekjur og sporslur.  Einnig hafa framsóknarmenn í borginni þegið ferða- og dagpeningagreiðslur langt umfram kjörfylgi þessa langminnsta framboðs í borginni, að ekki sé minnst á veislugleði þeirra og annan sníkjuhátt á kostnað almennings.  

Þegar í tíð meirihluta Björns Inga Hrafnssonar og borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins var áberandi hve lítils hófs var gætt í veisluhöldum og risnukostnaði ásamt ótæpilegum ferða- og dagpeningakostnaði.  Undirritaður reyndi að taka á þessum málum í borgarstjóratíð sinni en gat þó ekki komið í veg fyrir að Björn Ingi Hrafnsson héldi stórt og mikið boð í Höfða þegar hann þurfti að kveðja borgarstjórn vegna frægs spillingar- og „fatakaupamáls". 

Ekkert eðlilegt samráð var haft við undirritaðan í sambandi við undirbúning þeirrar veislu þar sem þáverandi fráfarandi formaður borgarráðs Björn Ingi Hrafnsson virtist halda sjálfur um hnútana, enda fengið leyfi Sjálfstæðisflokksins til veisluhalda og annarrar notkunar fjármuna borgarbúa í anda þeirrar „framsóknarvæðingar" og spillingar sem fyrri helmingastjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gekk út á eins og sú síðari. 

Það hefur orðið dagsljóst eftir að upplýst varð um veisluhöld Óskars Bergssonar fyrir 25 meinta sveitarstjórnarmenn  Framsóknarflokksins nýlega.  Vísbendingar eru þó um að þar hafi vinir eða kunningjar Óskars einnig verið boðnir á kostnað borgarbúa.  
Því er nauðsynlegt að upplýst verði, hverjir sátu hinn borgarbúakostaða Framsóknarfögnuð í ráðhúsinu 14. nóvember sl.?

Ekki hefur verið formlega upplýst um kostnað af þessum Framsóknarfögnuði, en undirritaður hefur upplýst að kveðjuveisla hans sem borgarstjóra, sem að sjálfsögðu var greidd af honum sjálfum og setin var af 25 samstarfsmönnum í Ráðhúsinu kostaði 288.000 krónur.  Þar voru svipaðar veitingar í boði og handa hinum niðurgreiddu Framsóknarmönnum.

Undirritaður óskar jafnframt eftir að upplýst verði á ný og með skýrari hætti en áður hver var veislu-,  risnu-, ferða- og dagpeningakostnaður  borgarstjóraembættisins í minni borgarstjóratíð og það borið saman við kostnaðinn í tíð fyrri helmingaskiptameirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Undirritaður telur fullvíst að munurinn sé verulegur enda er honum vel kunnugt um bruðlið og flottræfilsháttinn í tíð þessa fyrri helmingaskiptameirihluta.

Þá óskar undirritaður eftir að upplýst verði um þátt Óskars Bergssonar í hinu fræga fatakaupamáli, sem varð fyrirrennara hans Birni Inga Hrafnssyni að falli.  Var þar um einhverjar upphæðir að ræða og ef svo er þá hverjar?

Þáði Óskar greiðslur frá Eykt?

Af augljósu tilefni er einnig spurt um margumrædd tengsl Óskars Bergssonar við byggingarfélagið Eykt og hvort hann hafi þegið beinar greiðslur frá félaginu eða öðrum hagsmunaaðilum í byggingariðnaði.  Óskar Bergsson hefur þegar sýnt það að hann er eins og a.m.k. síðasti  fyrirrennari hans í oddvitasæti borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins spilltur fyrirgreiðslupólitíkus og það hlýtur að vera krafa almennings að upplýst sé um hans fjárhagslegu og hagsmunalegu tengsl sem og grófa misbeitingu almannafjár.

Og loks um leið og ég ítreka kröfu mína um að Óskar Bergsson víki nú þegar sem borgarfulltrúi og formaður borgarráðs, hyggst borgarstjóri og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins verja ennþá setu Óskars Bergssonar sem kjörins fulltrúa í borgarstjórn þrátt fyrir augljósa spillingu og misbeitingu almannafjár?," að því er segir í fyrirspurn  Ólafs F. Magnússonar á fundi borgarráðs í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert