Seðlabanki Jóhönnu Sigurðardóttur

Árni Mathiesen lét að sér kveða í umræðunni á Alþingi …
Árni Mathiesen lét að sér kveða í umræðunni á Alþingi í dag. Ómar Óskarsson

Árni M. Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þær hugmyndir sem uppi eru hjá meirihlutanum um að forsætisráðherra skipi fjóra af fimm nefndarmönnum í nýja peningastefnunefnd Seðlabankans, veiti forsætisráðherra mjög mikil völd.

Um er að ræða seðlabankastjórann sjálfan, aðstoðarseðlabankastjórann samkvæmt tillögum meirihluta viðskiptanefndar, og tvo sérfræðinga.

Þar að auki munu allar þessar skipanir eiga sér stað samtímis ef frumvarpið um breytingar á yfirstjórn bankans verður að lögum. ,,Ég efast um að forsætisráðherra hafi nokkurn tíma haft svona mikið vald yfir seðlabankastjórninni,“ sagði Árni í lok ræðu sinnar á Alþingi í dag. ,,Þá mætti jafnvel hugsa sér að þetta yrði seðlabanki Jóhönnu Sigurðardóttur,“ bætti hann við og tók þannig undir orð Birgis Ármannssonar samflokksmanns síns, sem fyrr í umræðunni hafði vikið að því að völd forsætisráðherra yfir seðlabankanum yrðu mjög mikil með þessu móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert