Sex til tíu námsstyrkir í Abu Dhabi í boði

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/RAX

Masdar stofnunin í Abu Dhabi hefur boðið forseta Íslands Ólafi
Ragnari Grímssyni að tilnefna sex til tíu íslenska stúdenta í alþjóðlega
sveit námsmanna en úr henni verða valdir styrkþegar til meistaranáms í
verkfræði, umhverfisfræðum, upplýsingatækni og stjórnun. Kostnaður við
nám þeirra, húsnæði og dvöl verður greiddur að fullu.

Námið við Masdar stofnunina er skipulagt í samvinnu við MIT háskólann í Bandaríkjunum og þurfa nemendur að uppfylla strangar kröfur sem gerðar eru til námsdvalar við þann skóla enda verður meistaragráðan einnig vottuð af MIT. Námsmennirnir sem valdir verða úr hinni alþjóðlegu sveit umsækjenda skulu hafa lokið B.Sc. gráðu í viðkomandi greinum.

Forseti Íslands tilkynnti um þessa styrki við opnun Framadaga í Háskólabíói í morgun, en Framadagar eru samstarfsverkefni háskólanemenda og atvinnulífs. Á þeim gefst nemendum tækifæri til að huga að framtíðarstarfi, styrkjum fyrir lokaverkefni og öðrum tækifærum. Dagarnir eru skipulagðir af Íslandsdeild AIESEC, alþjóðlegum samtökum
stúdenta.

Masdar stofnunin í Abu Dhabi var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum og er starfsemi hennar liður í áherslum landsins á vistvæna framtíð, hreina orku og verndun lífríkis jarðar. Verkefni stofnunarinnar hefur meðal annars verið að skipuleggja nýja borg, Masdarborg, með þeim hætti að hvorki verði þar mengun af úrgangi né útblæstri.

Forseti Íslands hefur á undanförnum árum starfað náið með stjórnendum Masdar meðal annars forstöðumanninum dr. Sultan Ahmed Al Jaber. Þá sótti forseti heimsráðstefnu um orkumál, World Future Energy Summit, sem haldin var í Abu Dhabi í fyrsta sinn árið 2008 og tók sæti í dómnefnd vegna nýrra orkuverðlauna sem þjóðhöfðingi Abu Dhabi stofnaði.

Þess má geta að íslensk verkfræði- og orkufyrirtæki sóttu heimsráðstefnuna bæði árið 2008 og 2009.

Forseti Íslands mun leita eftir tilnefningum frá íslenskum háskólum og öðrum menntastofnunum og rannsóknarstofnunum. Einstakir námsmenn sem áhuga hafa á að koma til greina við val á styrkþegum geta aflað nánari upplýsinga á skrifstofu forseta Íslands. Forseti Íslands mun síðan hafa samráð við prófessora og vísindamenn við íslenskar menntastofnanir um tilnefningar á íslensku stúdentunum.

Umsóknir frá þeim nemendum sem áhuga hafa þurfa að hafa borist forsetaembættinu fyrir 15. mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar um þetta nám og þær námsbrautir sem í boði verða má fá á vefsetri Masdar.

Stofnunin gerir kröfu um að umsækjendur hafi lokið GRE prófi og
TOEFL eins og tíðkast við bandaríska háskóla, og hafi lokið B.Sc. prófi
með góðri einkunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert