Uppsagnir fyrirhugaðar á Landspítala

50 til 60 starfsmönnum Landspítala verður sagt upp á árinu, sólarhringsdeildum verður breytt í dag- og göngudeildir og umtalsverður sparnaður er fyrirhugaður í innkaupum spítalans. Þá verður skorið niður í yfirbyggingu Landspítala. RÚV greindi frá.

Skera þarf niður útgjöld á Landspítala um 2,6 milljarða króna á þessu ári. Launakostnaður verður skorinn niður um einn milljarð. 96 störf verða lögð niður og þarf að líkindum að segja upp 50 til 60 starfsmönnum á árinu. Þá verður sviðsstjórum spítalans fækkað úr 24 í 6. Loks verður við það miðað að enginn verði í minna en 50% starfi en dæmi eru um mun lægra starfshlutfall. Um 5.100 manns starfa hjá Landspítalanum.

Áformað er að spara 750 milljónir króna í innkaupum hjá spítalanum, bæði í lyfjakaupum og annarri rekstrarvöru.

mbl.is