Fjármagnsflutningar Kaupþings höfðu mikil áhrif á Bretana

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson. mbl.is/Valdís Thor.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að sennilega hafi það haft mikil áhrif á bresk stjórnvöld í kjölfar íslenska bankahrunsins, að fé var flutt úr dótturfélagi Kaupþings, sem laut breskum lögum og eftirliti.

Þá sagðist Davíð hafa sent íslensku lögreglunni bréf í desember vegna viðskipta fjárfestis frá Katar með hlutabréf í Kaupþingi.

Davíð sagði á viðskiptaþingi í vetur, að hann vissi hvað orðið hefði til þess, að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum gegn íslenska ríkinu og Landsbankanum. Þegar Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Kastljóss, spurði Davíð hvort hann vildi upplýsa nú um þessa vitneskju sína svaraði hann, að ekki væri útilokað að Bretar hefðu orðið hræddir þegar þeir urðu varir við að íslenskir aðilar tóku peninga út dótturfélagi Kaupþings sem laut bresku eftirliti. Fyrst hefði breska fjármálaeftirlitið talið að um væri að ræða 400 milljónir punda og síðan 800 milljónir punda og loks enn hærri tölu.

Þá sagði Davíð, fréttir hefðu borist af því að lögreglu hefði borist nafnlaust bréf sem varð til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið. Davíð sagði, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina