Fréttaskýring: Meiri annir í Barnahúsi en nokkru sinni

Síðasta ár var það annasamasta í rúmlega tíu ára starfsemi Barnahúss. Alls fengu 323 börn þjónustu hjá starfsfólki Barnahúss, en þangað komu 189 árið 2007 og 182 árið 2006. Fjöldinn á einu ári hafði aðeins einu sinni fyrir þann tíma farið yfir 200.

Af þessum 323 börnum fóru vel á annað hundrað barna í meðferðarviðtöl þar sem reynt var að vinna úr vanda þeirra. Vel á þriðja tug barna fór í læknisskoðun eftir komu í Barnahús. Yfirleitt fara börn úr Reykjavík í skýrslutöku í dómhúsinu í Reykjavík, en þau koma þá í meðferðarviðtal hjá Barnahúsi og eru inni í fyrrgreindum tölum.

Yngstu börnin sem koma í rannsóknarviðtal eru þriggja og hálfs árs, en ekki er talið að yngri börn geti tjáð sig í skýrslutöku. Dæmi eru um að yngri börn komi í læknisskoðun í Barnahús. Flest barnanna sem koma þangað eru innan við 12 ára, en þau elstu eru 18 ára gömul.

Börnin koma nánast eingöngu í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi eða misneytingu.

Auðvitað ekkert annað en faraldur

„Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum er vaxandi vandamál, því miður,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, „Við höfum aldrei séð annað eins stökk á milli ára og þessi aukning er meiri en okkur óraði fyrir,“ segir Bragi. Hann segir greinilegt að íslenskt samfélag sé orðið mjög meðvitað um þann vanda sem kynferðisofbeldi sé og umræða um vandamálið eigi sér ekki hliðstæðu í allri veröldinni.

„Hvergi annars staðar er málafjöldi jafn mikill hlutfallslega og hér,“ segir Bragi. „Ef við beitum sams konar reikningsaðferðum og við faraldsfræði sjúkdóma þá eru 7-7,5% líkur á því að barn sem fæðist í dag eigi eftir að koma í Barnahús til rannsóknar miðað við tölur frá síðasta ári. Ef um væri að ræða barnasjúkdóm eða berkla svo dæmi séu tekin þá væri allt á öðrum endanum í samfélaginu og vandinn væri skilgreindur sem faraldur. Þetta er auðvitað ekkert annað en faraldur.“

Starfsemi Barnahúss hefur vakið athygli víða um heim og margar þjóðir nýtt sér reynsluna þaðan. Í Svíþjóð eru nú starfandi 15 barnahús og 5 í Noregi. Í samningi Evrópuráðsins um kynferðisofbeldi er Barnahúsið eina stofnunin sem vísað er til sem fyrirmyndar. Það sé líka gleðilegt að almenningur og fagfólk á Íslandi treysti Barnahúsi, segir Bragi.

Verslunarvæðing kynlífs

Hann segir að meðal þess sem geri íslenskt samfélagið sérstakt sé langur vinnutími foreldra og í hve miklum mæli báðir foreldrar vinni utan heimilis. Þá sé netvæðing mjög mikil hér á landi og Bragi segist sannfærður um, þó hann gæti ekki fært vísindaleg rök fyrir því byggð á rannsóknum, að kynferðisofbeldi og misneytingu mætti í stöðugt meira mæli rekja til mikillar netvæðingar hér á landi.

„Verslunarvæðing kynlífs og klámvæðing á netinu sem við höfum ekki farið varhluta af á síðasta áratug á ríkan þátt í þessari þróun. Netið verður stöðugt stærri hluti af uppvexti drengja sem búa við félagslega einangrun. Þegar þeir komast á unglingsár leita þeir uppi klámsíður á netinu. Þeir ánetjast þessu og mörkin milli þess sem er eðlilegt og óeðlilegt verða stöðugt óskýrari. Þeir treysta sér ekki í jafnaldrahópinn og oft verða yngri börn fyrir barðinu á þeim,“ segir Bragi Guðbrandsson.

Þjónustan á einum stað

» Barnahús hóf starfsemi í nóvember 1998. Rekstur þess er á vegum Barnaverndarstofu sem fer með stjórn barnaverndarmála í umboði félagsmálaráðuneytisins.

» Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála.

» Börn og forráðamenn þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. » Sæti mál lögreglurannsókn fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara en barnaverndarnefndir geta óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss.

» Meðal markmiða er að skapa vettvang fyrir samstarf og samhæfingu stofnana sem bera ábyrgð á rannsókn og meðferð mála er varða kynferðisofbeldi gegn börnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert