Seðlabankafrumvarp afgreitt

Frumvarp um Seðlabanka verður tekið til þriðju og síðustu umræðu …
Frumvarp um Seðlabanka verður tekið til þriðju og síðustu umræðu á Alþingi á morgun. mbl.is/Ómar

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Seðlabanka Íslands var í kvöld afgreitt frá viðskiptanefnd Alþingis með einni breytingartillögu, sem fulltrúar Samfylkingar, VG og Framsóknarflokks í nefndinni standa að. Þriðja og síðasta umræða um frumvarpið verður á Alþingi á morgun og er gert ráð fyrir að það verði þá að lögum.

Að sögn Gunnars Svavarssonar, varaformanns nefndarinnar, lýtur breytingartillagan að því að auka hlutverk peningastefnunefndar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði sett á stofn. Er kveðið á um upplýsingaskyldu nefndarinnar við sérstakar aðstæður á peningamarkaði.

Sjálfstæðismenn í viðskiptanefnd töldu að skoða ætti betur hvað þessi breytingartillaga fæli í sér. Líta þeir svo á, að tillagan feli í sér umtalsverða breytingu á hlutverki peningastefnunefndar og nauðsynlegt sé að fá sérfræðinga til að leggja á það mat.  

„Við teljum eftir þessar málalyktir lýsi fráleitum vinnubrögðum," sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

mbl.is