Enski boltinn áfram hjá 365

Cristiano Ronaldo tekst á við Tony Hibbert í leik Manchester …
Cristiano Ronaldo tekst á við Tony Hibbert í leik Manchester United og Everton. PHIL NOBLE

Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur náð samningum um að halda áfram sýningum á leikjum ensku úrvaldsdeildarinnar í knattspyrnu, enska boltanum, á þessu leiktímabili. Nokkur tilslökun var gerð á verðinu af hálfu sjálfseignarstofnunarinnar Football Association Premier League, sem á sýningarréttinn. Ari Edwald, forstjóri 365, segir enska boltann þó enn mjög kostnaðarsaman á þessum vetri.

Meginbreytingin er að sögn Ara sú að að samningur Stöðvar 2 verður styttur um eitt keppnistímabil, svo að yfirstandandi tímabil verður það síðara af tveimur, en ekki annað af þremur. Fljótlega verði svo annað útboð á enska boltanum, til fjögurra ára, til að komast aftur inn í þriggja ára samningstíma í takt við aðrar sjónvarpsstöðvar. Ari segir stefnt á að taka þátt í því útboði.

Hann segir þessa niðurstöðu um enska boltann mjög jákvæða fyrir Stöð 2 og að hinn nýi samningur hafi náðst í góðu samkomulagi við hinn erlenda rétthafa. „Við höfum lokið samningum við alla okkar birgja sem máli skipta, bæði varðandi efni á Stöð 2, efnið í Fjölvarpinu og fjölmarga seljendur íþróttaefnis. Þar eru náttúrulega stærstir enski boltinn, meistaradeildin og formúlan,“ segir Ari.

mbl.is

Bloggað um fréttina