Telja gjaldeyrissamstarf Íslands og Noregs óraunhæft

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, áttu fund …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, áttu fund í Eldborg í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og formaður norska Verkamannaflokksins, telja báðir að horfast verði í augu við þá staðreynd að gjaldmiðlasamstarf Íslands og Noregs sé óraunhæft.

Þetta kom fram á fundi Ingibjargar Sólrúnar og Stoltenbergs við Bláa lónið í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Samfylkingunni voru flokksformennirnir sammála um að rætur fjármálakreppunnar liggi í græðgi og skorti á markvissum leikreglum og eftirliti. Kreppan muni vara nokkurn tíma og að ekkert land verði með öllu ósnert af áhrifum hennar.

Til að afstýra slíkum kreppum í framtíðinni þurfi að efla alþjóðlegt samstarf og regluverk en slíkt sé í anda jafnaðarstefnunnar sem telji markaðinn öfluga leið til að leysa mörg verkefni en megi samt ekki stjórna ferðinni alfarið á kostnað annarra samfélagslegra gilda.  Þá verði að efla félagslegar lausnir á borð við velferðarkerfið til að mæta afleiðingum fjármálakreppunnar fyrir heimilin.

Ingibjörg Sólrún sagði, að styrkur hins norræna samstarfs hafi komið í ljós í viðbrögðunum við gjaldeyris- og bankakreppunni á Íslandi. Fyrir það séu Íslendingar þakklátir. Böndin séu ekki síst sterk þegar systurflokkar fara með forystu í ríkisstjórnum og deila sýn á grundvallaratriði og lausnir. Nú þurfi  að skilgreina stöðuna og áætlun um endurreisn. 

Formennirnir lýstu báðir ánægju með skýrslu Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, þar sem lögð er áhersla á aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála og telja það líklegt til að styrkja Norðurlöndin sem heild. Viðhald fjármálastöðugleika í heiminum er í sjálfu sér mikilvægt öryggismál.

mbl.is