Øygard bíða brýn verkefni

Ólafur Ísleifsson.
Ólafur Ísleifsson.

„Þessi maður hefur víðtæka reynslu úr norsku stjórnkerfi og fyrirtækjaráðgjöf, og þetta ætti að vera gott veganesti,“ segir Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, um Svein Harald Øygard, sem hefur verið settur sem nýr seðlabankastjóri til bráðabirgða.

„Hann er með mjög brýn verkefni. Hann talar sjálfur um endurreisnina á bankakerfinu, sem er mjög aðkallandi. Það þarf að gera bankakerfið þannig úr garði að geti þjónað íslensku atvinnulífi, sem er nú í nauðvörn,“ segir Ólafur.

Øygard mun brátt eiga fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Þeir fara með æðsta vald í gjaldeyris- og peningamálum. Það er auðvitað brýnt að leiða sjóðnum það fyrir sjónir að við getum ekki búið við þessa ofurháu vexti. Sömuleiðis þarf að ákveða tafarlausa lækkun á þeim og ákveða vaxtalækkunarferli. Um leið þarf að ákveða áætlun um afnám á gjaldeyrishöftunum. Og til undirbúnings því þarf að sprengja snjóhengjuna sem hangir yfir Íslandsbyggð, sem eru krónubréfin og aðrar eignir erlenda aðila þannig að þeir sjái sér hag í því að vera hér áfram.“

Ólafur segist ekki þekkja Øygard, en að hann sé velkominn og að honum fylgi góðar óskir í sínu starfi.

mbl.is