Fólkið úr öllum áttum á L-listanum

Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson mbl.is/Þorkell

Þórhallur Heimisson, talsmaður hins nýja stjórnmálaafls, L-listans, segir mikinn kraft í framboðinu. Enn er unnið að því að fá listabókstafnum L formlega úthlutað og að staðfesta nafnið, en Þórhallur er fullviss um að af framboðinu verður.

L-listanum er ætlað að verða farvegur fyrir sjálfstæða frambjóðendur til Alþingis, sem skrifa undir ákveðin sameiginleg grunngildi. Framboðið verður því mun óformlegra og lausbundnara en hefðbundnir stjórnmálaflokkar, þar sem flokksagi hefur löngum verið ráðandi.

„Við höfum engan pening og enga styrki frá ríkinu. Svo höfum við engin stórfyrirtæki á bak við okkur og enga styrki frá fyrirtækjum En það streymir inn fólkið. Við erum með  um 2.000 manns í Facebook-hópi og póstlista sem ég hef ekki hugmynd um hvað eru margir á. Fólk sem kemur sjálfviljugt úr öllum áttum. Við höfum troðfyllt loftið á Lækjarbrekku aftur og aftur,“ segir Þórhallur. „Það má því segja að við höfum ekki eytt krónu og höfum ekki fengið krónu, en samt er allur þessi hópur á bak við okkur,“ bætir hann við. Á morgun verður haldinn blaðamannafundur þar sem framboðið verður kynnt nánar og hvaða fólk verður þar á listum.

Til þess að vera með í starfi L-listans þarf ekki langa og útfærða stefnuskrá, heldur aðeins að skrifa undir fjögur grunngildi. Í fyrsta lagi segir Þórhallur að aðild að Evrópusambandinu sé alfarið hafnað. „Vegna þess að við erum lýðræðissinnar og teljum að það myndi skerða okkar lýðræði og fullveldi,“ segir hann. Þá er framboðið á móti flokksræði og vill að þingmenn standi á sinni samvisku og engu öðru.

Í þriðja lagi vill L-listafólk raunverulega endurreisn heimilanna, þannig að tekið verði á okurvöxtum og verðtryggingu sem Þórhallur segir sliga heimilin, í stað þess að tala bara um að gera það. Síðast en ekki síst vill L-listafólk endurreisn atvinnuveganna. Að hjól atvinnulífsins verði raunverulega snúin í gang og létt á fyrirtækjunum með lækkun vaxta.

„Allar hanga þessar grunnstoðir á lýðræðinu,“ segir Þórhallur. ,,Atvinnuleysið og ástandið á heimilunum brýtur niður lýðræðið því fólk er óttaslegið og þorir ekki að tjá sig. Allt ýtir það undir annarlegt ástand," segir Þórhallur um ástand lýðræðisins í landinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert