Bera kostnað vegna mótmæla

Frá mótmælum í miðborg Reykjavíkur.
Frá mótmælum í miðborg Reykjavíkur.

Beinn kostnaður lögreglu höfuðborgarsvæðisins vegna mótmæla á síðasta ári og það sem af er þessu ári nemur tæpum 42 milljónum króna. Að auki kemur til 5-8 milljón króna óbeinn kostnaður, s.s. vegna tilfærslu á mönnum milli verkefna. Embættið þarf að öllum líkindum að bera kostnaðinn og kemur þá til hagræðingar. Embættið þarf að öllum líkindum að bera kostnaðinn og kemur þá til hagræðingar. Alls nema heildarútgjöld lögregluembætta vegna mótmælanna 55,5 milljónum króna.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, segir kostnaðinn umfram rekstraráætlun og því aðeins tvennt í stöðunni. „Annað hvort fáum við fjárveitingu til að standa undir þessu eða við verðum að grípa til frekari hagræðingar.“ Hann segist ekki vera búinn að gefa upp von um þá aukafjárveitingu enda hafi hann ekki fengið gögn í hendur frá dómsmálaráðuneytinu um afgreiðslu málsins.

Að sögn Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, verður sem fyrr allra leiða leitað til að styðja starfsemi embættisins, sem og annarra lögregluembætta sem urðu fyrir óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum vegna mótmælanna. „Hins vegar er ljóst að möguleikar til að sækja viðbótarfjármagn eru afar takmarkaðir og því ekki útséð hvort eða þá hvernig unnt verði að koma til móts við embættin vegna þessara útgjalda,“ segir Ragna.

Auk útgjalda hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins nemur kostnaður Ríkislögreglustjóra 10,2 milljónum króna, tveimur milljónum króna hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og 1,5 milljón króna hjá sýslumanninum á Selfossi. Spurð sérstaklega út í kostnað lögreglu höfuðborgarsvæðisins segir Ragna að fengist hafi viðbótarfjárveiting til þess embættis þannig að unnt verði að framlengja tímabundna ráðningu tuttugu lögreglumanna, sem ráðnir voru til embættisins í janúar sl. einnig á grundvelli viðbótarfjárveitingar. „Var það ekki síst með vísan til þess viðbúnaðar, sem lögreglan þurfti að viðhafa vegna mótmælanna.“

Stefán segir að þeir tuttugu menn hafi vissulega styrkt lögregluliðið, það segi sig sjálft. „En kostnaðurinn hefur þegar fallið til og gerði það áður en þessi tuttugu manna hópur kom inn. Það var ekki fyrr en upp úr 20. janúar sl.“ Hann segir áframhaldandi ráðningu tuttugu manna vel rökstudda og mikilvæga með hliðsjón af því ástandi sem verið hefur í þjóðfélaginu. „En eftir stendur sá kostnaður sem við höfum þurft að bera. Beinn kostnaður út af okkar viðbúnaði og aðgerðum.“


mbl.is