Sátt um víðtækari endurgreiðslu VSK

mbl.is/Ómar

Þverpólitísk samstaða er í efnahags- og skattanefnd Alþingis um verulegar breytingar á frumvarpi sem kveður á um tímabundna hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 100% vegna nýbygginga, viðhalds og endurbóta húsnæðis. Lagt er til að ákvæðið nái líka til frístundabyggðar eða sumarhúsa, hönnunar og eftirlits verkefna og húsnæðis í eigu sveitarfélaga og hálf opinberra félaga.

Frumvarp til breytinga á lögum um virðisaukaskatts var lagt fram á Alþingi 9. febrúar. Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og vegna vinnu við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis verði hækkað úr 60% í 100%. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að ákvæðið gildi frá 1. mars 2009 til 1. júlí 2010. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að endurgreiða ákveðið hlutfall virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum húseiningum en það verði ákveðið í reglugerð.

Annars vegar er markmiðið að greiða fyrir framkvæmdum í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðfélaginu á vinnumarkaðnum og hins vegar er markmiðið að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Frumvarpið hefur tekið umtalsverðum breytingum í meðförum efnahags- og skattanefndar og er þverpólitísk samstaða um breytingartillögur.

Samstaða er í nefndinni um að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 60% í 100%. Þá er vilji til að ákvæðið nái einnig til vinnu manna við nýbyggingar.

Nefndin leggur til að endurgreiðslutíminn verði lengdur út árið 2010 þ.e. í 22 mánuði frá 1. mars að telja.

Ennfremur leggur efnahags- og skattanefnd til að lögin nái til vinnu manna við frístundabyggð eða sumarhús, bæði viðhaldsverkefna og nýbygginga.

Samstaða er um að endurgreiðslan nái einnig til forsteyptra byggingareininga og til virðisaukaskatts af vinnu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga þ.e. vegna hönnunar og eftirlits verkefna. Það er talið koma sér vel við viðhaldsverkefni t.d. fjölbýlishúsa, en einnig mundi það skapa vinnu hjá þessum hópi en atvinnuástand er tregt hjá þessum hópi núna. Jafnframt gæti hönnunartími verið langur þ.e. þó að framkvæmdir hæfust ekki fyrr en á næsta ári.

Loks leggur efnahags- og skattanefnd til að ákvæðið um tímabundna 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts nái einnig til annars húsnæðis í eigu sveitarfélaga og hálf opinberra félaga eða stofnana. Það gæti glætt mjög framkvæmdir við skólahúsnæði, félagslegar leiguíbúðir, menningarstofnanir og íþróttamannvirki en KSÍ ályktaði um málið á nýafstöðnu ársþingi.

Ekki er talið að frumvarpið hafi umtalsverð áhrif á tekjur ríkissjóðs þar sem á móti skattaendurgreiðslum komi veltuskattar, auknir tekjuskattar og útsvar og væntanlega minni atvinnuleysisbætur, þannig að þegar upp er staðið verði nettóáhrif þess á ríkissjóð væntanlega ekki umtalsverð.

Eins og áður segir er þverpólitísk samstaða um málið í efnahags- og skattanefnd. Vonir standa til að hægt verði að afgreiða málið út úr nefndinni á morgun þannig að það komi til annarrar umræðu á fimmtudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert