Þrír aðskildir stofnar djúpkarfa

Ráðgjafanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að djúpkarfi við Ísland auk Grænlandshafs og nærliggjandi hafsvæða séu þrír líffræðilega aðgreindir stofnar. Leggur nefndin til að byggt verði á svæðastjórnun við úthlutun kvóta og að ein stjórnunareiningin verði veiðar í landgrunnshlíðum Íslands.

Djúpkarfi á landgrunnshlíðum Grænlands, Íslands og Færeyja og úthafskarfi í Grænlandshafi og nærliggjandi hafsvæðum eru taldir til sömu tegundar. Veiðar á djúpkarfa hafa verið stundaðar allt frá byrjun sjötta áratugar síðustu aldar en fjölþjóðlegar veiðar á úthafskarfa hófust árið 1982.

Til þessa hefur stofnmat og stjórnun veiða miðað við tvær einingar. Annars vegar veiðar í Grænlandshafi og nærliggjandi hafsvæðum og hins vegar veiðar í landgrunnshlíðum Grænlands, Íslands og Færeyja.

Að sögn Hafrannsóknastofnunar hefur ágreiningur lengi staðið meðal vísindamanna um stofngerð karfa og hafa vísindamenn stofnunarinnar  lengi talið að núverandi stjórnunareiningar endurspegli ekki líffræðilegar stofneiningar.

Síðasta áratug hafa því staðið yfir umfangsmiklar fjölþjóðlegar rannsóknir á stofngerð karfa og þær rannsóknir voru grunnur að skýrslu sérfræðinganefnda ICES  í janúar  þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að djúpkarfi við Ísland auk Grænlandshafs og nærliggjandi hafsvæða væru þrír líffræðilega aðgreindir stofnar:
1. Karfi í Grænlandshafi, á meira en 500 metra dýpi
2. Karfi í Grænlandshafi, á minna en 500 metra dýpi
3. Djúpkarfi á landgrunnshlíðum Íslands.

Landgrunnshlíðar Grænlands eru talin vera uppeldissvæði karfa sem finnst á öllum  þessum svæðum. Sérfræðinganefndin telur að þar sem ekki sé hægt að stjórna veiðunum út frá  ífræðilegri aðgreiningu með tilliti til dýpis verði að byggja á svæðastjórnun.

Umrædd svæðastjórnun í Grænlandshafi byggir á því að veiðar á karfa í norðaustur Grænlandshafi séu  að mestu á meira en 500 metra dýpi en veiðar í suðvestur Grænlandshafi að mestu á minna en 500 metra dýpi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert