Aldrei fleiri hópnauðganir

mbl.is/Kristinn

Alls var tilkynnt um fimmtán hópnauðganir til Stígamóta á síðasta ári og hafa þær aldrei verið jafn margar en árið 2007 voru þær sex talsins. Fjórtán lyfjanauðganir voru tilkynntar á síðasta ári og hafa heldur aldrei verið jafn margar.  Árið 2007 voru þær 11, samkvæmt ársskýrslu Stígamóta.

94 mál eru skilgreind sem nauðgun en þá eru hópnauðganir og lyfjanauðganir undanskildar. 

Mikil fjölgun viðtala

Þegar ný mál, bæði frá brotaþolum og aðstandendum, eru lögð saman verður heildarfjöldi nýrra mála hjá Stígamótum 273 sem er 4 málum færri en á síðasta ári.  Fjöldi einstaklinga sem færist á milli ára er meiri en í fyrra og nemur fjölgunin 9,6%.  Ofbeldismenn eru tveimur fleiri en árið 2007.  Heildarfjöldi einstaklinga er meiri en á síðasta ári sem nemur 3,8%.  Heildarfjöldi viðtala er 9,5% meiri en árið 2007 og eru mörg ár eru síðan svo mörg viðtöl voru tekin á Stígamótum og síðan og heildarfjöldi einstaklinga hefur verið svo mikill.

Þegar litið er til þess hvers vegna leitað var til Stígamóta á síðasta ári sést að í 24% tilfella var um sifjaspell að ræða en 2,8% tilvika var um grun um sifjaspell að ræða. Nauðgun var ástæðan í 20,4% tilfella og grunur um nauðgun í 1,1% tilvika. 

Á síðasta ári voru kærð 54 mál sem bárust til Stígamóta og hafa þau aldrei verið jafn mörg, samkvæmt ársskýrslu Stígamóta. Hins vegar var ekki kært í rúmlega 70% tilvika.

84,5% ofbeldismanna Íslendingar

„Það er ýmislegt athyglisvert í skýrslunni sem við höfum ekki skoðað áður,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. „T.d. þetta með útlendinga, bæði þá sem leita til okkar og þá sem beita ofbeldi,“ en ef litið er til þjóðernis ofbeldismanna sést að 84,5% þeirra sem beittu ofbeldi eru Íslendingar eða í 321 tilviki. Ofbeldismennirnir voru í 26 tilvikum frá öðrum ríkjum Evrópu en tíu utan Evrópu. Upplýsingar vantar um þjóðerni ofbeldismannanna í 22 tilvikum. Þeir sem urðu fyrir ofbeldi eru í 95,3% tilvika Íslendingar en 3% tilvika frá öðrum löndum. Segir í skýrslu Stígamóta að samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru útlendingar 8,1% þeirra sem dvöldu á Íslandi á síðasta ári. Þetta sýni að Stígamót nái ekki nægjanlega til útlendinga á Íslandi og því hafi verið brugðið á það ráð að gefa út kynningarbæklinga um samtökin á nokkrum tungumálum.

Þegar litið er á fjölda ofbeldismanna fyrir hvern brotaþola sést að í 65,25% tilvika er um einn ofbeldismann að ræða en í 17,80% tilvika eru ofbeldismennirnir tveir. Í einu tilviki voru ofbeldismennirnir átta, en þó ekki allir á sama tíma, sagði Guðrún á kynningarfundi í morgun.

Veruleg fjölgun klámmála

Málum vegna kláms fjölgaði mikið á síðasta ári, úr 11 málum 2007 í 21 mál árið 2008. Á síðasta ári nýttu 22 konur og 1 karl sér viðtalsþjónustu Stígamóta vegna vændis, þar af voru níu ný mál en fjórtán voru eldri mál.

 
mbl.is