Bankaráð Seðlabanka ólöglega skipað?

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, hefur sent Jafnréttisstofu bréf þar sem hún óskar eftir því að lögmæti skipunar bankaráðs Seðlabankans verði kannað, þar sem fimm karlar og aðeins tvær konur sitja sem aðalmenn. „Ég tel þessa skipan brjóta í bága við jafnréttislög. Ef Jafnréttisstofa tekur undir þetta sjónarmið óska ég eftir því að hún kanni forsendur kæru á hendur ríkisstjórninni,“ segir í bréfi Silju Báru.

Í 15. grein jafnréttislaga segir að við skipun í ráð á vegum ríkisins skuli gæta þess að hvort kyn skipi að minnsta kosti 40% sæta þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Í greininni er hins vegar veitt undanþága frá þessari reglu, þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Þá er skylt að útskýra þær ástæður.

„Undirrituð fær ekki séð að undanþáguheimild geti með nokkru móti átt við um þessa skipan,“ segir í bréfi Silju Báru til Jafnréttisstofu. Hún hefur einnig sent erindið til Guðbjarts Hannessonar, forseta Alþingis þar sem bankaráðið er kosið af Alþingi samkvæmt lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina