Útlendingum þakkað fyrir að auðga samfélagið

Auglýsingar mannréttindaskrifstofu og Auga til að þakka útlendingum. Meginefni þeirra …
Auglýsingar mannréttindaskrifstofu og Auga til að þakka útlendingum. Meginefni þeirra er einfaldlega: Takk.

Mannréttindaskrifstofa Íslands og Auga - velgerðarsjóður auglýsingaiðnaðarins hafa hleypt af stokkunum herferð sem felst í því að þakka innflytjendum opinberlega fyrir að auðga mannlíf og menningu landsins og taka þátt í að byggja hér upp fjölbreytt og öflugt samfélag.

Markmið átaksins er að vinna gegn fordómum gegn innflytjendum á Íslandi og vekja fólk til umhugsunar um það jákvæða sem fjölmenning hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.

Herferðin felst í að þakka innflytjendum opinberlega fyrir að auðga mannlíf og menningu landsins og að taka þátt í að byggja hér upp fjölbreytt og öflugt samfélag.

Auglýsingaherferðin stendur í tvær vikur í sjónvarpi, blöðum og tímaritum, strætóskýlum og á netinu.

Herferðin, sem er á vegum AUGA, er unnin í sjálfboðavinnu af auglýsingastofum innan Sambands íslenskra auglýsingastofa, SÍA. Árvakur, Fréttablaðið, Afa JCDecaux, Sjónvarpið, Stöð 2, Skjár einn, Mbl.is og Vísir.is munu birta herferðina og Capacent vinnur rannsóknarvinnu tengda átakinu.

AUGA er góðgerðarsjóður auglýsingaiðnaðarins sem er ætlað að gera samtökum sem sinna samfélagsstarfi kleift að ná betri árangri í starfi sínu með því að beita afli auglýsinga í þeirra þágu.

Herferðinni er hleypt af stokkunum nú í tengslum við  Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti sem hverfist um alþjóðadag gegn kynþáttamisrétti, 21. mars. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi daginn í minningu 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars 1960 er þeir mótmæltu aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku. Evrópuvikan miðar að því að uppræta mismunun, fordóma og þjóðernishyggju í álfunni og stuðla þannig að umburðarlyndu Evrópusamfélagi þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna.

Fjölmargir viðburðir verða víða um landið í tengslum við Evrópuvikuna, sjá nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert