Matjurtagörðum fjölgað í Reykjavík

mbl.is

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hyggst koma til móts við aukna eftirspurn almennings eftir matjurtagörðum með því að fjölga görðum í Skammadal í Mosfellsbæ og bjóða almenningi að leigja lausa garða í skólagörðum í borginni.

Þórólfur Jónsson, hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar, segir borgina hafa verið með um hundrað 100 fm garða í útleigu í Skammadal á undanförnum árum en að hægt sé að fjölga þeim um allt að hundrað til viðbótar án mikilla tilfæringa.

Segir hann að garðarnir verði auglýstir bráðlega en að móttaka umsókna um garða sé þegar hafin. Þá segir hann að þeim sem verið hafi með garða í Skammadal á síðasta ári hafi verið sent bréf þar sem þeir hafi verið beðnir um að lát vita hvort þeir vildu halda áfram. Nýjum leigjendum verði þó fyrst um sinn úthlutað görðum, sem ekki hafi verið í leigu á síðasta sumri, til að gefa eldri leigjendum kost á að fá sömu garða aftur. Þá segir hann að almenningi verði boðið að leigja lausa garða í skólagörðunum en töluvert hafi verið um lausa garða þar á undanförnum árum. Einnig sé í athugun að taka einhverja garða úr rekstri sem skólagarða og nýta þá alfarið til útleigu til almennings.

Þórólfur segir garðana í skólagörðunum vera 20 fm og að gert sé ráð fyrir að hægt verði að leigja út 50 til 60 slíka garða. Hann segir þó nokkuð misjafnt eftir hverfum borgarinnar hversu vel nýttir skólagarðarnir séu og því geti fólk ekki gengið að því sem vísu að fá garð í eigin hverfi.

Leiga á garði í Skammadal er 4.400 krónur er ekki er búið að fastsetja hvað garðarnir í skólagörðunum munu kosta. Þórólfur segir þó líklegt að leiga fyrir þá verði svipuð og leiga fyrir garðana í Skammadal þar sem staðsetning vegi þar upp á móti stærð garðanna.Þórólfur segir áhuga á leigu matjurtagarða greinilega hafa aukist en að hann hafi ekki heyrt skýringar á því hjá þeim sem hann hafi átt samskipti við vegna þessa. Hann telji þó að margir hafi nú meiri tíma en áður auk þess sem fólk vilji spara og reyna að vera sjálfu sér nægt á þeim tímum sé nú standi yfir.   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert