Enginn sóttist eftir styrk nema Sjálfstæðisflokkurinn

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Neyðarlínan styrkti Sjálfstæðisflokkinn um 300 þúsund kr., að því er fram kemur í úttekt Ríkisendurskoðunar á fjármálum stjórnmálaflokkanna. Að sögn Þórhalls Ólafssonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, var fyrirtækið hlutafélag á þessum tíma og í eigu margra aðila.

„Einhverra hluta vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn óskað eftir þessum styrk og það ætti ekki að koma neinum á óvart hvar ég er í pólitík,“ segir Þórhallur en hann gegndi eitt sinn stöðu aðstoðarmanns Þorsteins Pálssonar. Aðrir flokkar hafi ekki sóst eftir styrk.

En er eðlilegt að Neyðarlínan styrki stjórnmálaflokka með þessum hætti? Þórhallur vill ekki leggja mat á það. „Í mínum huga er þetta léttvægt,“ segir hann. „Maður er kannski of aumingjagóður að eðlisfari.“

Í úttektinni kemur einnig fram að ýmis verkalýðsfélög styrktu stöku stjórnmálaflokka, m.a. Starfsgreinasambandið sem styrkti Samfylkinguna um 25 þúsund kr. Að sögn Kristjáns Gunnarssonar formanns var um auglýsingastyrk að ræða sem aðrir flokkar leituðu ekki eftir. Þá kemur fram að Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, þar sem Kristján gegnir einnig formennsku, hafi eingöngu styrkt Vinstri græna um 50 þúsund kr.

Hann segir að félagið hafi einnig styrkt Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn með svipaðri upphæð, þótt það komi ekki fram í úttekt Ríkisendurskoðunar. Sjálfstæðisflokkur og aðrir hafi ekki leitað til félagsins. Þá styrkti Samiðn Samfylkinguna um 25 þúsund kr.

Finnbjörn Hermannsson formaður segir að samþykkt hafi verið að styrkja alla flokka sem eftir því leituðu um þessa upphæð en fleiri hafi ekki óskað eftir styrk.

Svipaða sögu hefur Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, að segja. Félagið hafi ákveðið að styrkja Samfylkinguna með 25 þúsund kr. styrktarlínu í 1. maí blað og í framhaldinu hafi bréf verið sent til annarra flokka um að sambandið myndi styrkja þá sem leituðu eftir því með þeirri upphæð. Eftir því hafi ekki verið sóst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina