Viljum aðgang að samningaborðinu

Makríll
Makríll mbl.is

 Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra segir Íslendinga í fullum rétti til að stunda veiðar á makríl sem sé innan lögsögu landsins stóran hluta ársins. Hann telur farsælast að Íslendingar fái aðgang að samningaborði Norðmanna, Færeyinga og Skota um hlutdeild í veiðinni.

Steingrímur hringdi í gær í norska kollega sinn, Helgu Pedersen, sjávarútvegsráðherra Noregs, í gær vegna yfirlýsinga hennar í norskum fjölmiðlum um markílveiðar Íslendinga. „Ég útskýrði að við gerðum kröfur um að koma að borðinu þar sem yrði samið um skiptingu þessa stofns. Við teldum okkur vera í fullum rétti þegar stofn af þessu tagi væri farinn að vera innan okkar efnahagslögsögu þónokkurn hluta ársins.“

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt við íslensku makrílveiðarnar er að stærstur hluti aflans fari í bræðslu í stað manneldis, sem skilar umtalsvert meiri verðmætum. „Hluti af þessum fiski – líka síldinni – fer í bræðslu því það næst ekki að nýta allt til manneldis,“ segir Steingrímur. „Við gerum okkur vissulega vonir um að hægt verði að nýta stærri hluta til manneldis en það byggist m.a. á því að útgerðirnar búi sín skip þannig. Svo er makríllinn oft blandaður síld á köflum svo þetta er háð aðstæðum, fitumagni og fleiru.“

Hann bætir því við að hluti makrílafla Norðmanna, Færeyinga og Skota fari í bræðslu. „Það þarf enginn að segja mér annað svo það þýðir ekkert að vera með einhvern ógurlegan heilagleika í þessu.“

Skiptast á bréfum

Fund norsku og bresku sjávarútvegsráðherranna bar einnig á góma í símtali Steingríms og Pedersen. „Ég sagði að okkur þætti mjög óréttlátt ef gefið væri í skyn að við yrðum beitt einhverjum þvingandi aðgerðum. Við teldum þetta löglegar veiðar og um þær giltu alþjóðasamningar, bæði EFTA- og WTO-samningar. Við ætluðumst til þess að það yrði farið eftir þeim.“

Hvað varðar fréttir af tilmælum Pedersen til norskra laxeldisstöðva um að kaupa ekki íslenskt makrílmjöl segir Steingrímur: „Ég vil nú kannski ekki meina að það séu komin tilmæli þar um heldur er þetta eitthvað sem er sagt í blöðum.“ Hins vegar taki hann slíkar fréttir alvarlega og vegna þeirra hafi hann ákveðið að hringja í Pedersen. Þeim kom saman um að skiptast á formlegum bréfum þar sem rök hvors um sig yrðu reifuð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert