„Þurfum að opna flokkinn betur fyrir konum og ungu fólki“

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll. mbl.is/Heiddi

Andri Óttarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins ávarpaði landsfund Sjálfstæðisflokksins á tilfinningalegum nótum þegar hann rifjaði upp þegar Geir H. Haarde, formaður, hefði hringt í sig og boðið sér framkvæmdastjórastarfið. Honum hefði runnið kalt milli skinns og hörunds við tilhugsunina að taka við af Kjartani Gunnarssyni. Hann sagðist vera meiri maður eftir að hafa unnið með og kynnst fráfarandi formanni, Geir H. Haarde og þakkaði honum fyrir samstarfið.

„Við höfum reynt að opna Valhöll og reynt að gera innra starf flokksins aðgengilegt fyrir alla flokksmenn,“ sagði Andri. Öllum flokksmönnum var gefinn kostur á að koma með sínar athugasemdir og skoðanir.

Andri fjallaði um kynningarmál Sjálfstæðisflokksins og sagði að flokkurinn hefði ákveðið að endurvekja Flokksfréttir og að blaðinu yrði dreift til trúnaðarmanna flokksins. Hann fjallaði einnig um þær breytingar sem hefðu orðið í áherslu flokksins almennt í kynningarmálum, eins og nýbreytni í kynningu á netinu og þess háttar.

Sjónarmið ólíkra hópa

Andri sagði að það væri gríðarlega mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn endurspeglaði sjónarmið ólíkra hópa og að ungir sem aldnir væru þátttakendur í flokksstarfinu.

„Við þurfum að opna flokkinn betur fyrir konum og ungu fólki,“ sagði Andri. Hann sagði mikilvægt að tryggja stöðu kvenna í forystu Sjálfstæðisflokksins á hverjum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur minnkandi fylgis meðal ungra kjósenda. „Þetta er slæm þróun því hugsjónir ungs fólks eiga mikla samleið með sjálfstæðisstefnunni,“ sagði Andri. „Við verðum að treysta unga fólkinu og taka tillit til sjónarmiða þeirra. Sú goðsögn að pólitískt starf er á undanhaldi á ekki við rök að styðjast.“

Hringt í Valhöll eftir bankahrunið

„Það kastaði skugga á prófkjörið (í Reykjavík innsk. blaðam.) að nafnlausar dylgjur birtust um frambjóðendur á internetinu. Það er afar brýnt að við bregðumst við slíkum orðrómi með skýrum hætti,“ sagði Andri. Hann sagði að enginn kæri sig um að kosningabaráttur í flokknum fari að einkennast af rógi og dylgjum.

Andri sagði að starfsmenn Valhallar hefðu unnið gríðarlega óeigingjarnt starf við að svara símtölum frá fólki í mikilli geðshræringu eftir bankahrunið. Hann vék jafnframt að sterkri fjárhagsstöðu flokksins. „Sjálfstæðisflokkurinn stendur best að vígi í samanburði við aðra flokka og er minnst skuldum vafinn,“ sagði Andri.  Hann sagði að styrktarmannakerfi flokksins væri birtingarmynd þess sem flokkurinn stæði fyrir. Best væri fyrir flokkinn að vera sinn eigin herra og sjálfum sér nægur.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins á mbl.is. með því að smella á tengil í kosningarenningi neðarlega á forsíðu mbl.is.

Andri Óttarsson
Andri Óttarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert