Framsókn vill í vinstrisæng

Siv Friðleifsdóttir Alþingismaður.
Siv Friðleifsdóttir Alþingismaður.

Siv Friðleifsdóttir þingmaður gerði hosur Framsóknarflokksins grænar fyrir Samfylkingunni og Vinstri-grænum á Alþingi í dag. Í óundirbúinni fyrirspurn sagði hún eðlilegt að flokkar sem ganga bundnir til kosninga greini þjóðinni frá aðalatriðum væntanlegs stjórnarsáttmála fyrir kosningar.

„Er ekki nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir sýni þjóðinni stjórnarsáttmálann, sýni hvort hér verði almennar skattahækkanir, hvað á að gera í atvinnumálum, hvar á að skera niður og hvar á að lenda ESB málinu?“ spurði Siv. Hins vegar bætti hún því við að í slíkt samstarf skorti jarðtengingu og átti hún þar við Framsóknarflokkinn.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra steig þá í pontu og sagði gott og blessað að hafa jarðtengingu í stjórnarsamstarfi, enda væri gulgrænn þráður yfirleitt í hlutverki slíkrar tengingar. Hins vegar væri ljóst að straumurinn og krafturinn kæmi úr hinum tveimur þráðunum. Átti hann þar við stjórnarflokkana.

mbl.is

Bloggað um fréttina