Trúir engu í Lesbókargrein um ævintýralegan flótta

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og lektor við lagadeild Háskólans í …
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. mbl.is/Einar Falur

„Mér finnst þetta allt saman með miklum ólíkindum og er ekki tilbúinn til að trúa neinu þarna eins og sakir standa,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um fullyrðingar sem koma fram í greininni „Ævintýralegur flótti frá Íslandi“ sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins á laugardag.

Höfundur greinarinnar, Guðbrandur Jónsson flugstjóri og áhugamaður um flugsögu Íslands, rekur þar flóttasögu þýskra hermanna frá Íslandi árið 1941. Hann segist m.a. hafa heimildir fyrir því að málið hafi leitt til handtöku símamálastjóra, lögreglustjórans og stjórnar og forstjóra Fiskimálanefndar. Þar að auki hafi bandaríski herinn hrakið Hermann Jónasson, forsætisráðherra, frá völdum um vorið 1942 þegar málið upplýstist.

Verða að hafa traustar heimildir

Morgunblaðið leitaði álits Guðna á greininni. Guðni benti á að sagnfræði og sagnfræðigrúsk snerist um heimildamat og um að kynna sér það sem fyrir lægi, hvað fyrri rannsóknir gæfu til kynna. „Þegar menn halda einhverju fram sem er svona stórkostlega á skjön við það sem fyrr hefur verið talið og skella fram einhverjum niðurstöðum sem eru svona svakalegar eins og voru í þessari Lesbókargrein þá verða menn að hafa mjög traustar heimildir og sannfæra lesendur um að þetta sé svona. En það var alls ekki gert,“ sagði Guðni.

Einnig yrði að gæta að því að allar staðreyndir væru á hreinu og nöfn réttilega rituð en á því hefði verið misbrestur, sbr. að í greininni er rætt um bandaríska sendifulltrúann Kunigund en hann hét í raun Kuniholm.

Guðni bætti við að vonandi kæmu þær heimildir sem greinarhöfundur telur sig hafa fljótlega fram í dagsljósið. „Þetta er svo ótrúlegt, finnst öllum venjulegum mönnum, meðal annars að þessar fjöldahandtökur hafi legið í þagnargildi allan þennan tíma, þannig að best væri að höfundur sýndi heimildirnar fyrir þessum fjöldahandtökum,“ sagði hann.

Guðni tók fram að sagnfræðingar væru ekki þeir einu sem gætu skrifað um fortíðina. Það væri hins vegar grundvallaratriði að leggja mat á heimildir og kynna sér það sem þegar hefur verið rannsakað. „Og trúa ekki öllu eins og nýju neti, efast frekar en að sannfærast og þannig býr maður til grunn að traustri niðurstöðu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »