Ekki fallist á bjórdrykkju að afloknum akstri

Karlmanni var í Hæstarétti í dag gert að greiða 160 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs og sviptur ökuréttindum í átján mánuði fyrir ölvunarakstur. Maðurinn hélt því fram að hann hefði fundið til einhverra áfengisáhrifa við aksturinn, en hafa stöðvað bifreiðina og drukkið úr einni bjórdós áður en lögreglan kom. Ekkert var talið hafa komið fram til stuðnings þessari fullyrðingu en vínandamagn í blóði mannsins reyndist vera 1,82 prómill. Engin tóm bjórdós fannst í bifreið mannsins né heldur þar sem bifreið hans var stöðvuð. Eins var ekki fallist á þá fullyrðingu ökumannsins að við töku blóðsýnis hefði hjúkrunarfræðingur borið spritt á handlegg hans áður en sýnið var tekið og það útskýri að hluta áfengismagn í blóði hans. 

Í héraðsdómi var manninum gert að greiða sömu fjárhæð í sekt en sviptur ökuréttinum í eitt ár en hann var stöðvaður af lögreglu í janúar 2008 er hann ók inn Þistilfjörð.

Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að niðurstaða úr blóðrannsókn réði mestu um úrslit málsins, en ekkert benti til þess að staðið hafi verið að töku blóðsýnis og rannsókn á því með einhverjum þeim hætti að efni væru til að vefengja ákvörðun á alkóhólinnihaldi í sýninu. Var því talið sannað að alkóhólmagn í blóði ákærða hafi verið slíkt sem í ákæru greindi er hann ók bifreiðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina