Styrkir stórfyrirtækja til nauðstaddra

Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra og Ásgerður Jóna Flosadóttir, …
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra og Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. mbl.is/Sverrir

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands skorar á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að láta 55 milljóna styrki frá FL Group og Landsbankanum renna til Fjölskylduhjálparinnar í stað þess að skila fjármununum til þrotabúa fyrirtækjanna. Peningarnir færu þar beint í lögfræðihítina, eins og Ásgerður Jóna orðar það í áskorun sinni.

Ásgerður Jóna Flosadóttir býður Bjarna Benediktssyni í heimsókn til Fjölskylduhjálparinnar svo hann geti með eigin augum séð þá eymd sem ríkir hjá alltof mörgum fjölskyldum í dag.

Áskorun Ásgerðar Jónu til Bjarna Benediktssonar

„Ég vil leggja það til við Bjarna Benediktsson formanns Sjálfstæðisflokksins að hann leggi þessar 55 milljónir til Fjölskylduhjálpar Íslands í stað þess að skila þessum fjármunum sem munu bara lenda í lögfræðihítina í kringum þessi tvö fyrirtæki.

Í dag var úthlutað matvælum til yfir 350 fátækra fjölskyldna sem leituðu til Fjölskylduhjálpar íslands. Að fá þessar 55 milljónir til að hjálpar íslenskum fjölskyldum næstu 4 árin væri góðverk að hálfu  Sjálfstæðisflokksins.

Ég býð fyrir hönd okkar 25 sjálfboðaliða Bjarna Benediktssyni í heimsókn til okkar næsta miðvikudag og upplifa þá miklu eymd sem ríkir hjá allt of mörgum íslenskum heimilum í dag, hvort sem um er að ræða fjölskyldur á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Fjölskylduhjálp Íslands upplifir mikinn hlýhug frá íslenskum fyrirtækjum enda væri ekki hægt að hjálpa slíkum fjölda fjölskyldna nema fyrir þeirra tilstilli fyrirtækjanna. Bestu þakkir til ykkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina