Í vegi fyrir glæsibyggingu

Eigendur hússins við Vatnstíg fjögur sem lögreglan rýmdi í morgun segja borgaryfirvöld  hafa tafið fyrirætlanir um glæsilega byggingu á svæðinu. Nokkur gömul hús hafa staðið auð og drabbast niður meðan áform eigendanna hafa verið til umfjöllunar í borgarkerfinu. Þetta er grotnunaraðferð sagði Ólafur Guðmundsson eldri borgari sem fylgdist með í morgun.

Lögreglan réðist inn í húsið við Vatnsstíg 4 snemma í morgun og fleygði út hústökufólki sem þar hafðist við með ýmsa starfsemi. Alls voru 22 handteknir en enginn slasaðist að þvi að vitað er. Húsið laskaðist hinsvegar talsvert þar sem lögreglan braut glugga og gluggaumbúnað og ruddi sér leið á loftið þar sem hústökufólkið var og hafði búist til varnar.

ÁF verktakar eiga öll húsin við Vatnstíg milli Hverfisgötu og Laugarvegar sömu megin og Vatnsstígur 4 stendur.  Ágúst Friðgeirsson eigandi félagsins er bróðir Ásgeirs Friðgeirssonar talsmanns Björgólfs Thors en Björgólfsfeðgar hafa haft uppi  ýmis byggingaráform í nágrenninu. Eigendur segja húsið ónýtt og saka borgaryfirvöld um að hafa tafið fyrir glæsilegri nýbyggingu á svæðinu. Á meðan málið hefur velkst um í borgarkerfinu hafa húsin verið látin drabbast niður.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir eldhættu stafa af hústökufólkinu en hvorki er rafmagn né hiti á húsinu. Hætta stafi af opnum eldi og þá hafi íbúar lagt kapla í nærliggjandi hús til að sækja sér rafmagn.  Ítrekað hefur verið fleygt út útigangsfólki sem hefur brotið sér leið inn í húsin og eigendur segja kakkalakka hafa grafið um sig í húsinu.

Margir vegfarendur fylgdust með á vettvangi í morgun. Ólafur Guðmundsson eldri borgari, segir ömurlegt að horfa uppá hvernig húsin séu látin grotna niður þar til ekki sé annað að gera en að rífa þau. Hann sagði samt að samúð sín með hústökufólkinu væri takmörkuð. Guðrún Ásgeirsdóttir sem ólst upp í húsinu við Laugaveg 39 segir að það vanti líf og fjör í miðbæinn, fólk en ekki verslanir og nýbyggingar. Það þurfi að fá gamla borgarbraginn frá því á árum áður. Talsmaður eigendanna segir ólíklegt að glæsihúsið verði byggt í því árferði sem nú er. Ekki í bili, sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert