Kaup á vændi bönnuð

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp um breytingar á hegningarlögunum sem gerir það refsivert að kaupa vændi. Viðurlög eru allt að eins árs fangelsi. Um er að ræða þingmannafrumvarp um svonefnda sænska leið, sem þingmenn úr VG, Framsóknarflokki og Samfylkingu lögðu fram en svipuð frumvörp hafa verið til umfjöllunar á Alþingi undanfarin ár án þess að fá afgreiðslu.

Frumvarpið var samþykkt með 27 atkvæðum þingmanna fyrrgreindra flokka þriggja. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks greiddi atkvæði gegn frumvarpi en 16 þingmenn flokksins sátu hjá.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði við atkvæðagreiðslu um frumvarpið, að það væri afrakstur nærri 10 ára baráttu þingmanna Vinstri grænna. Með þessum gleðilegu tímamótum kæmist íslenskt réttarfar í það horf, að það sé refsivert að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði þetta gleðilega niðurstöðu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að brotið hefði verið blað í Íslandssögunni með samþykkt þessa frumvarps.

mbl.is

Bloggað um fréttina