Ítrekar að kaupum sé aflýst

Margeir Pétursson.
Margeir Pétursson. mbl.is/Kristinn

„Ég ítreka að þrátt fyrir góðan vilja skilanefndar til að bjarga verðmætum og fá eitthvað fyrir þau er ljóst að okkar keppinauti, Nýja Kaupþingi hefur tekist að búa til hindrun sem eyðileggur kaupin. Þetta er mitt mat á stöðunni eftir breytingu Fjármálaeftirlitsins á fyrri úrskurði sínum sem kynnt var í gær," segir Margeir Pétursson inntur eftir því hvort það sé rétt sem Hlynur Jónsson, formaður skilanefndar SPRON, sagði í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að samningurinn um kaup MP banka á útibúaneti SPRON standi enn.

„Því miður hefur ekkert komið fram sem breytir því mati mínu að Nýja Kaupþingi hafi tekist að eyðileggja það að við tökum yfir útibúanet SPRON."

Margeir sagði í gær að ekkert yrði af kaupum MP banka á SPRON eftir að Fjármálaeftirlitið (FME) birti ákvörðun þess efnis að skilanefnd SPRON, sem hafði selt útibúin og nb.is, væri óheimilt að ráðstafa eignum SPRON nema með samþykki FME.

Inntur eftir því hvort eitthvað hafi ógilt samninginn sem MP banki og skilanefnd SPRON gerðu um kaupin svarar Margeir: „Já, það er ómögulegt á að efna hann."

Hann segir að með því að draga kaupin sé verið að eyðileggja vörumerki og viðskiptavild SPRON þannig að verðmætin sem um ræðir ónýtist. „En ég tek það fram að við eigum ekki í neinni deilu við skilanefndina. Við áttum góðan fund í morgun með formanni hennar og ef það er einhver leið til að bjarga málinu stendur ekki á okkur."

Hann segir ýmsar leiðir hafa verið ræddar á fundinum í morgun sem ekki sé hægt að tjá sig um að svo stöddu. „Hins vegar er ekki afsakanlegt að halda 40 starfsmönnum í óvissu. Sumt þessa fólks er með tilboð, t.d. frá Nýja Kaupþingi sem virðist geta bætt við sig mörgu starfsfólki." Þegar hefur MP banki ráðið til sín níu starfsmenn sem áður störfuðu fyrir SPRON, m.a. í tengslum við opnun eigin netbanka. „Þegar þjónustumiðstöð MP banka verður opnuð að fjórum til sex vikum liðnum munum við ráða fleiri," segir Margeir.

En er þá ekki útséð um að kaupin gangi eftir? „Ég fagna bjartsýni formanns skilanefndar en það er alveg ljóst í mínum huga að Nýja Kaupþing er búið að vinna þessa orrustu," svarar Margeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka